Undirritaður fór í hálfgerða pílagrímaferð til Bandaríkjanna nýliðna helgi þar sem við sáum leiki hjá Kristni Pálssyni hjá Marist og Jón Axel Guðmundssyni í Davidson.  Líkast til vita allir hvernig þessir leikir fóru hjá þeim köppum.  Kristinn og félagar börðust gegn besta háskólaliði Bandaríkjana þegar þeir mættu Duke háskólanum og Jón Axel og félagar í Davidson öttu kappi við Appalachian State. Tvö gjörólík verkefni hjá þessum framtíðar landsliðsmönnum okkar.  

 

Skemmst frá því að segja þá áttu Marist aldrei möguleika gegn Duke háskólanum eins og við höfum áður greint frá.  Davidson áttu í smá vandræðum í upphafi leik sínum gegn Appalachian en höfðu að lokum sigur þar sem að okkar maður Jón Axel átti prýðis leik eftir að hafa byrjað nokkuð brösulega.  Jón Axel spilaði rúmlega 20 mínútur í leiknum, byrjaði inná sem er nokkuð óvenjulegt af nýliða í svo sterkum skóla.  Eftir að hafa rætt við Bob McKillop þjálfara liðsins heyrði maður hinsvegar að Jón á eftir að spila rullu hjá skólanum næstu 4 árin. 

 

Upplifunin að fara á þessa leiki var algerlega einstök.  Stemmningin ólík á þessu tveimur leikjum og án þess að taka mikið af stuðningsmönnum (nemendum) í Davidson þá var upplifunin hreint ótrúleg í Cameron Indoor Stadium, heimavelli Duke.   Körfuboltinn þar er náttúrulega lífið en kvöldið áður hafði hinsvegar verið góð upphitun þegar Duke vann erkifjendur sína UNC í fótboltanum (American)  Það er í raun ómögulegt að lýsa þeirri stemmningu sem þarna inni var en við reynum þó.  Íþróttahúsið lítur ekki út fyrir að vera stórt að utan en þegar inn er komið er það hinvegar í fínni stærð. Niðurgrafið og því lítur þetta út fyrir að vera stórt að utan.  Það er gamall stíll á flestu þarna inni enda húsið byggt árið 1940.  Húsið tekur rúmlega 9000 manns og er hefðbundið fyrir utan eina stúku sem er ætluð hörðustu stuðningsmönnum sem standa og hoppa eða öskra ALLAN TÍMANN á meðan leik stendur. Hreint ótrúlegt að fylgjast með.  Þess má geta að ákveðinn stuðningsmannaklúbbur Kristins Pálssonar spratt upp einmitt í þessum hluta stúkunnar. 

 

Að fara á slikan leik er eitthvað sem allir körfuknattleiksunnendur þurfa að purfa og jafnvel þeir sem vilja ekkert með körfubolta hafa.  Slíkt er hverrar krónu virði og ef þið eigið mögulega á að komast á leik hjá Duke, eða einhverjum af þessum stóru háskólum þá er þetta engin spurning! 

 

Myndasöfn frá kvöldunum eru komin á Facebook síðu Karfan.is og viðtöl við drengina eftir leik er hægt að sjá hér að neðan. 

 

Myndasafn Davidson

Myndasafn Marist vs Duke