ÍR-ingar fengu Grindvíkinga í heimsókn í Hertz-hellinn í kvöld. Bæði lið höfðu landað 4 stigum af 8 mögulegum fyrir leikinn og sitja hlið við hlið í töflunni. Ástandið er hins vegar misjafnt á liðunum, ÍR-ingar hafa orðið fyrir alþekktum skakkaföllum í upphafi móts – Stefán Karel jafnvel hættur alfarið en Kiddi M. var þó a.m.k. í búningi í kvöld. Grindvíkingar fengu hins vegar Garðbæinginn snjalla, Dag K. Jónsson til liðs við sig sem á vafalaust eftir að reynast mikill og góður fengur.
Þáttaskil:
Heimamenn fóru vel af stað og leiddu með nokkrum stigum fyrstu mínúturnar. Gestirnir virkuðu samt einbeittir og ákveðnir og tilfinningin var sú að þeir myndu ekki hleypa ÍR-ingum langt. Dagur Kár opnaði reikninginn fyrir sitt nýja félag með þristi og Ólafssynir buðu upp á tvo til viðbótar – dæmigerðir Ólafssona-þristar og staðan 18-23 gestunum í vil eftir fyrsta fjórðung. Heldur syrti í álinn í öðrum leikhluta fyrir heimamenn. Skotin vildu alls ekki detta hjá þeim og í hálfleik stóðu leikar 33-44.
ÍR-ingar voru í eltingarleik í þriðja leikhluta og hótuðu í sífellu að koma sér almennilega inn í leikinn. Þeim tókst ítrekað að minnka muninn í 6 stig en gestirnir neituðu að gefa forskotið eftir. Matthías bjargaði annars slæmum lokamínútum heimamanna með flautuþristi spjaldið ofaní og munurinn aðeins 7 stig, 58-65 fyrir lokaleikhlutann.
Það er þekktur frasi að það sé erfitt að elta lengi. Heimamenn þreyttust þó ekkert á því og náðu loksins markmiði sínu þegar tæpar 7 voru eftir og komust yfir 69-67 eftir glæsilegan þrist frá Sveinbirni Klassa. Hann ætlaði svo sannarlega að vinna þennan leik og fylgdi því eftir með glæsilegri hreyfingu undir körfunni. Grindvíkingar voru svolítið að drífa sig og eins og sjálfstraustið hefði yfirgefið þá skyndilega. Þegar 3 mínútur lifðu leiks voru heimamenn 76-71 yfir og gestirnir virtust vera búnir að missa leikinn úr höndunum. Það reyndist alger þvæla og Ólafssynir settu 4 vítaskot niður undir lokin á meðan heimamenn klúðruðu mikilvægum skotum. Matti og Matthew fengu báðir tækifæri til að jafna leikinn með þristi í lokasókn leiksins en boltinn vildi ekki ofaní – 78-81 sigur Grindvíkinga eftir spennandi og flottan leik.
Tölfræðin lýgur ekki:
ÍR-ingar hittu ekki hafið á köflum í leiknum og 23% þriggja stiga nýting og aðeins rúmlega 50% vítanýting ber vott um það. Þar gerðu gestirnir mun betur.
Hetjan eða liðsheildin:
Deila má um hvort sé mikilvægara, að hafa sterka liðsheild eða hetju innanborðs. Í þessum leik sigraði liðsheild Grindvíkinga – nær allt byrjunarliðið var með 10+ stig og 17 stig komu af bekknum.
Kjarninn:
ÍR-ingar geta nagað sig í handarbökin eftir þennan leik. Þeir sýndu mikla baráttu og leyfðu ekki gestunum að stinga af. Þeir eltu eins og skugginn og virtust ætla að uppskera að lokum. Á síðustu mínútunum fór hins vegar allt í baklás og þeir töpuðu síðustu þremur mínútunum 2-10. Kannski er frasinn um að elta einfaldlega sannur.
Grindvíkingar virtust hafa öðlast endurnýjað sjálfstraust og trú í þessum leik. Þeir litu vel út og Dagur Kár gefur liðinu klárlega mikið. Þeir náðu þó ekki að ganga frá leiknum og geta prísað sig sæla að ná sigri. Þeir virtust ætla að fara á taugum eftir að ÍR-ingar náðu forskotinu en sýndu flottan karakter og enduðu ofaná.
Umfjöllun / Kári Viðarsson
Mynd / Bára Dröfn