Grindavík tók tvö sterk stig í kvöld þegar Njarðvík mætti í heimsókn í Mustad-höllina. Um jafnan leik var að ræða þar sem Grindvíkingar voru þó mestmegnis við stýrið. Síðustu fimm mínútur leiksins gerðu heimamenn þó út um vonir Njarðvíkinga með sterkum rispum og unnu leikinn 95-83.

Njarðvíkingar léku án Páls Kristinssonar í kvöld sem er erlendis og það sást langar leiðir að skorturinn á sentimetrunum háði grænum í kvöld rétt eins og undanfarið.

Grænir fóru ágætlega af stað en það var samt nokkuð vært yfir fyrsta leikhluta. Heimamenn tóku stjórnina í fráköstum, 17-8 eftir fyrsta leikhluta í þeim tölfræðiþætti, og Grindavík leiddi 23-18 eftir fyrstu mínúturnar þar sem Ólafur Ólafsson blakaði niður sóknarfrákasti eftir skot frá Clinch þegar leikhlutinn rann út.

Njarðvíkingar spreyttu sig á 1-3-1 svæði í upphafi annars leikhluta en heimamönnum tókst bæði að sauma sig vel í gegnum vörnina sem og finna fín skot fyrir utan og það skyldi á milli sem og meiri ákefð heimamanna í fráköstum sem leiddu vþí 47-40 í hálfleik. Aftur lokuðu gulir leikhlutanum, nú var það Þorleifur á ferðinni með tvö víti þar sem brotið var á honum eftir sóknarfrákast um leið og fyrri hálfleik lauk.

Tölfræðin í hálfleik

Grindavík: Lewis Clinch 13 stig, 4 frák, 3 stoðs – Dagur Kár 12 stig,
Njarðvík: Logi Gunnarsson 11 stig, 3 frák – Björn Kristjáns 9 stig, 2 fráköst, 2 stoðs

Skotnýting Grindavíkur í hálfleik
Tveggja 46% – þriggja 35% og víti 80%

Skotnýting Njarðvíkur í hálfleik
Tveggja 47% – þriggja 33% og víti 55%

Gestirnir úr Ljónagryfjunni áttu sterkan þriðja leikhluta, framan af fengu grænir fá varnarstopp en sóknarleikurinn flaut vel og Hjörtur Hrafn Einarsson jafnaði leikinn 68-68 eftir sóknarfrákast og Njarðvík leiddi svo 68-70 eftir þriðja og unnu þriðja hluta 30-21.

Fjórði var spennandi framan af en leiðir skyldu þegar fimm mínútur lifðu leiks, Clinch braust í gegn og tróð með vinstri og veitti heimamönnum þá vítamínssprautu sem þurfti til að klára verkið, lokatölur 95-83.

Fimm liðsmenn Grindavíkur gerðu 10 stig eða meira í leiknum, Clinch með 21 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar og þrennan ansi nærri. Dagur Kár Jónsson átti einnig sterkan da með Grindavík en hann gerði 20 stig og var 4-7 í þristum. Ólafur Ólafsson splæsti svo í 18 stig og 13 fráköst en í kvöld voru Grindvíkingar oft að gera lágvöxnu Njarðvíkurliði grikk í kringum teiginn og það skapaði þeim oft líka góð skotfæri fyrir utan svo þeir náðu fínni dýpt á leik sinn sem varð Njarðvík að falli á endanum.

Hjá gestunum voru Logi Gunnarsson og Stefan Bonneau báðir með 20 stig, Bonneau var einnig með 3 fráköst og 4 stoðsendingar og Logi bætti við 4 fráköstum.

Maður leiksins: Lewis Clinch Jr. – 21 stig, 10 fráköst, 8 stoðsendingar.

Tölfræði leiksins

Gangur leiksins:

10-9, 16-16, 23-18
27-23, 37-31, 47-40
58-54, 68-64, 68-70
72-72, 95-83

Myndir/ umfjöllun – Jón Björn Ólafsson, nonni@karfan.is