Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Keflavíkur og Grindavíkur í 7. umferð Domino´s-deildar karla. Fyrir leik er Grindavík í 3.-5. sæti deildarinnar með 8 stig en Keflavík í 6.-7. sæti með 6 stig.

Fjórði leikhluti

Leik lokið í Keflavík, lokatölur 96-102 fyrir Grindavík.

93-98 Þorleifur setur eitt víti fyrir Grindavík og 11 sekúndur til leiksloka. Keflvíkingar taka leikhlé en vonin um 5 stig á 11 sekúndum er veik, þó ekkert ómögulegt í honum körfubolta.

23 sek eftir af leiknum…Óli Óla á leið á línuna og staðan enn 91-97…hérna er sigur Grindavíkur endanlega kominn og fyrsti tapleikur Keflavíkur á heimavelli þetta tímabilið staðreynd.

52 sek eftir af leiknum. Grindavík á boltann, staðan 91-97…

Þorleifur Ólafsson! Risa þristur hjá Lalla og kemur Grindavík í 89-97 með rúma mínútu eftir af leiknum.

87-94 Ólafur Ólafsson skorar fyrir Grindavík í erfiðri stöðu, vel gert hjá landsliðsmanninum að klára úr þessu færi. 1.51mín og Keflavík fær tvö víti, Magnús Már Traustason setur bæði og minnkar muninn í 90-94.

2.49mín eftir af leiknum: 86-90 Davíð Páll Hermannsson setur stökkskot fyrir Keflavík í Grindavíkurteignum. Heimamenn eldsnöggir að vinna á níu stiga forskoti Grindvíkinga.

81-90 Ólafur Ólafsson svarar Keflavík í sömu mynt með stórum þrist en Guðmundur Jónsson fer galvaskur yfir og setur annan, hér er að hefjast flugeldasýning í boði Suðurnesjaliðanna! Staðan 84-90.

81-87 Reggie Dupree með bráðnauðsynlegan þrist fyrir Keflavík. 4.14 mín eftir af leiknum.

76-85 Þorsteinn Finnbogason með tvö víti fyrir Grindavík þegar fimm og hálf mínúta er eftir af leiknum. Grindvíkingar að ná tökum á þessu? Þorsteinn kominn í 15 stig.

76-79 Fjögurra stiga sókn hjá Keflavík. Fyrst óíþróttamannsleg villa dæmd á Ómar Sævars, Amin setur víti og svo kom Reggi í kjölsoginu með þrist.

72-79 Ingvi Guðmunds með þrist fyrir Grindavík og 7.58mín eftir af leiknum. Grindvíkingar á 8-0 „rönni“ í upphafi fjórða leikhluta.

72-76 Clinch svarar kallina strax í upphafi fjórða leikhluta, skorar og fær villu að auki. Gestirnir úr Grindavík byrja með 5-0 skvettu í fjórða.

Þriðji leikhluti

72-71 Þriðja leikhluta lokið. Enn hnífjafnt á með liðunum. Stevens ber áfram þungann af sóknarleik Keflavíkur og Clinch er enn í einhverskonar orlofi og gestirnir þurfa nauðsynlega á því að halda að hann verði meira ógnandi. Stevens er kominn í 39 stig og 11 fráköst en stigahæstur hjá Grindavík í augnablikinu er Ólafur Ólafsson með 16 stig.

*Rúmar tvær mínútur eftir af þriðja leikhluta þegar Þorleifur Ólafsson sækir sér tæknivíti fyrir að láta dómara leiksins fá nokkur vel valin orð í eyra. Þorleifur hafði nokkuð til síns máls en uppskar bara tæknivítið fyrir vikið. Staðan 69-65 fyrir Keflavík sem skorar svo strax aftur eftir innkastið 71-65. Það sem Þorleifur gerði er oft kallað að „sækja sér tæknivíti“ í von um að leiða t.d. dæmendur leiksins í sannleikann um málstað sinn. Nú ef þið trúið ekki þessari aðferð þá fékk Lalli villu strax í næstu sókn dæmda á varnarmenn Keflavíkur.

66-61 Stevens með eitt víti fyrir Keflavík og kominn í 35 stig, hefur verið óstöðvandi hér í kvöld. Hann klukkar 50 stig ef áfram heldur sem horfir.

61-56 Clinch með körfu og fær villu að auki, loksins einhver ógnun af honum en hann hefur haft heldur betur hægt um sig í liði Grindavíkur í kvöld.

56-48 Brotið á Þorsteini Finnbogasyni í þriggja stiga skoti, stóri strákurinn þakkar fyrir sig með að setja öll vítinu niður en þar með er ekki öll sagan sögð því hann gerir hér sex stig í röð. Skorar í næstu sókn og fær villu að auki og minnkar muninn í 56-51 og Þorsteinn kominn með 11 stig í liði Grindvíkinga.

54-43 Stevens skorar og fær villu að auki, setur vítið og heimamenn á 10-0 spretti í augnablikinu á rétt liðlega tveimur mínútum!

49-43 Dupree með þrist fyrir Keflavík, heimamenn koma sprækir út úr startblokkunum hér í síðari hálfleik.

*Þá er síðari hálfleikur hafinn. Það eru Grindvíkingar sem byrja með boltann.

Skotnýting liðanna í fyrri hálfleik
Keflavík:
Tveggja 64% – þriggja 42% – víti 42% (3-7)
Grindavík: Tveggja 46% – þriggja 28% – víti 100% (1-1)

Helstu tölur
Keflavík:
Amin Stevens 23 stig, 6 fráköst – Guðmundur Jónsson 8 stig og 3 fráköst.
Grindavík: Ólafur Ólafsson 10 stig, 2 fráköst – Ómar Örn Sævarsson og Þorleifur Ólafsson 6 stig.

Fyrri hálfleikur – hnotskurn
Þessar fyrstu 20 mínútur leiksins hafa verið jafnar, viðbúið að þjálfarar liðanna ræði við sína menn um meiri ákefð og orku í varnarleikinn enda staðan 44-43 í leikhléi. Keflvíkingar þurfa meira en bara Stevens í sóknarframlaginu og Grindvíkingar þurfa að sama skapi að taka fastar á Stevens sem er búinn að leika allt of lausum hala. Þetta hefur allt verið á umtalsvert vinalegum nótum svona miðað við Suðurnesjaslag en við skulum bara spenna beltin fyrir næstu 20 mínútur því ef leikurinn verður áfram jafn eins og í fyrri þá erum við að fá hjartastyrkjandi endasprett hérna.


(Amin Stevens hefur verið gríðarlega sterkur í liði Keflvíkinga í fyrri hálfleik með 23 stig og 6 fráköst)

Annar leikhluti

44-43 hálfleikur í Keflavík. Heimamenn leiða með einu stigi, hefðu getað verið þrjú en Keflavík átti lokasókn fyrri hálfleiks sem var hraðaupphlaup. Andrés Kristleifsson brenndi þá af sniðskoti vinstra megin við körfuna en hann gerði það sem er bannað, fór í sniðskot vinstra megin með hægri hendi og brenndi af, látum okkur öll þetta að lexíu verða krakkar.

44-41 Davíð Páll Hermannsson með glæsilega stoðsendingu á Guðmund Jónsson, eins og Davíð hefði leikið í bakvarðarstöðum allt sitt líf! 50 sek til hálfleiks.

40-39 Þorsteinn Finnbogason fær dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir helst til of hörð tök gegn Amin Stevens. Amin setti annað vítið en Keflvíkingar fá boltann aftur.

*Heimamenn í Keflavík þurfa að fara betur með boltann, sjö tapaðir á fyrstu 17 mínútum leiksins. Bakverðir Grindavíkur þeir Ólafur, Clinch og Dagur fullfærir um að refsa fyrir hvern einn og einasta tapaða bolta svo það er ráð fyrir Keflvíkinga að bæta úr þessu.

39-39 Magnús Már Traustason jafnar leikinn fyrir Keflavík eftir góða sendingu frá Reggie Dupree. 2.52mín til hálfleiks. Ekki sami gangur á Stevens núna og í fyrsta leikhluta en hjá gestunum hefur Ólafur Ólafsson verið skeinuhættur.

33-36 Grindvíkingar hafa verið sprækari hér fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta en það ber lítið á milli liðanna en hér var Þorsteinn Finnbogason að skora í teig Keflvíkinga og fékk villu að auki og þakkaði fyrir sig með að setja vítið niður.

28-29 Ólafur Ólafsson með eina svakalega Tomahawk-troðslu fyrir Grindavík, önnur troðslan hans í leiknum, sannur skemmtikraftur hér á ferð.

28-27 Guðmundur Jónsson með þrist fyrir Keflavík þegar um tvær og hálf mínúta er liðin af öðrum leikhluta.

Fyrsti leikhluti

23-22 Fyrsta leikhluta lokið. Clinch lokaði fyrsta leikhluta og færði Grindvíkinga nærri með þriggja stiga körfu en þetta voru fyrstu stig hans í leiknum. Þessi öflugi bakvörður fer rólega af stað. Amin Stevens frábær í fyrsta leikhluta fyrir Keflavík með heil 18 stig á 10 mínútum!

18-15 Ólafur Ólafsson kominn aftur inn í leikinn af bekknum og búinn að jafna sig á högginu sem hann fékk eftir troðsluna, minnkaði muninn í 18-15 með þrist.

16-12 Stevens kominn með 12 stig í liði Keflavíkur! Grindvíkingar fá svör við kappanum.

10-8 Ómar Örn Sævarsson með „put-back“ troðslu fyrir Grindavík. Fer allt fremur rólega af stað hér í Keflavík, rétt rúmar fjórar mínútur eftir af fyrsta leikhluta. Stevens er að baka Grindavíkurvörninni þónokkur vandkvæði.

8-4 Ólafur Ólafsson með troðslu fyrir Grindvíkinga en virðist hafa fengið högg í andlit og fer á bekkinn, inn í hans stað kom Hamid Dicko.

4-2 Amin Stevens gerir fyrstu fjögur stig heimamanna.

Fyrir leik:

Síðasta deildarviðureign liðanna í Keflavík fór 88-101 fyrir Grindavík á síðustu leiktíð þann 8. febrúar 2016.

Byrjunarlið Keflavíkur: Daði Lár Jónsson, Reggie Dupree, Guðmundur Jónsson, Magnús Már Traustason og Amin Stevens.

Byrjunarlið Grindavíkur: Dagur Kár Jónsson, Lewis Clinch, Ólafur Ólafsson, Ómar Örn Sævarsson og Þorsteinn Finnbogason.

Dómarar kvöldsins eru Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Leifur Garðarsson.