Vestri og Breiðablik mættust í 1. deild karla í kvöld á Jakanum á Ísafirði. Liðin höfðu mæst einu sinni áður í deildinni í vetur en þá fóru Blikar með 86-72 sigur af hólmi. Ísfirðingar voru án Nebojsa Knezevic, sem var frá vegna meiðsla, auk þess sem þjálfari þeirra spókaði sig um á myndarlegum hækjum eftir að hafa slitið hásin í vikunni.

 

 

Framan af var þetta fínasti leikur. Vestri var skrefinu framar í fyrri hálfleik og þá helst fyrir frammistöðu Magnúsar Breka Þórðarsonar sem skoraði 18 af 20 stigum sínum á fyrstu 20 mínútunum.

 

Seinni hálfleikur varð þó aldrei spennandi. Blikar keyrðu yfir heimamenn frá fyrstu mínútu hans og unnu að lokum þægilegan 71-93 sigur

 

 

Vendipunkturinn

Blikar mættu mikið grimmari til leiks í þriðja leikhluta en þeir skoruðu 19 af fyrstu 23 stigum leikhlutans. Tyrone Wayne Garland hjá Breiðablik fór mikinn í leikhlutanum en hann var með 11 stig, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta í honum.

 

 

Tölfræðin

Töpuðu boltarnir hjá Vestra voru þeim ansi dýrkeyptir. Í það heila töpuðu þeir 24 boltum, þar af 8 bara í þriðja leikhluta, og úr þessum töpuðu boltum skoruðu Blikar 30 stig. Verstir voru smjörfingurnir á Yima Chia-Kur en hann tapaði boltanum 9 sinnum.

 

Maður leiksins

Tyrone Wayne Garland var klárlega maður leiksins en auk þess að skora 27 stig stig olli hann gífurlegum usla í sóknartilburðum Vestra með 7 stolnum. Hann gaf einnig 11 stoðsendingar ásamt því að taka 5 fráköst.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Sturla Stígsson