Ísland sigraði Portúgal, 65-54, í síðasta leik undankeppni EuroBasket 2017. Íslenska liðið endar því í 3. sæti riðilsins, en Portúgal sæti neðar, í því 4. Tvö efstu lið riðilsins áttust einnig við þar sem að Ungverjaland hafði sigur á Slóvakíu og er því komið áfram á lokamótið.

 

 

Hægt af stað

Íslenska liðið fór hægt af stað í þessum leik. Vandræði þess við að koma stigum á töfluna virtust ætla að halda áfram í 1. leikhluta leiksins, en hann endaði 6-14 Portúgal í vil. Stíf pressuvörn Portúgal allan völlinn virtist setja íslensku stelpurnar svolítið út af laginu. 

 

Skelfileg nýting

Heppilegt fyrir Ísland var að skotnýting Portúgal var alveg hreint hræðileg í fyrri hálfleik leiksins, en þær voru 0/12 fyrir utan þriggja stiga línuna, í heildina 9/33 í skotum. Spurning hvort að þessi pressuvörn sem að þær voru að spila hafi verið slíkt orkufrek á þær að þær hafi hreinlega ekki getað skotið boltanum almennilega.

 

Innkoman

Ísland var allavegana inni í leiknum, eða ekki langt undan, þangað til að Hallveig Jónsdóttir kom inn á undir lok 2. leikhlutans. Hallveig ætlaði sér greinilega ekki að tapa þessum leik og setti heil sjö stig í röð undir lok hálfleiksins og kom Íslandi yfir í fyrsta skipti í leiknum með laglegu sniðskoti um leið og hálfleiksflautan gall.

 

Kaflaskil

Ljóst var strax í byrjun seinni hálfleiks að Ísland ætlaði sér að vinna þennan leik. Engin Hallveig var þó sjáanleg á vellinum, en leiða má líkur að því að með frábærri innkomu sinni í fyrri hálfleiknum hafi hún komið þeim á bragðið. Portúgal var þó aldrei langt undan. Þegar að 3. leikhlutinn endaði var staðan 49-43 fyrir Ísland. 

 

Kjarninn

Í heildina má segja að hlutirnir hafi ekki litið neitt sérstaklega vel út fyrir Ísland í byrjun leiks. Vandræði þeirra við að skora, líkt og í leiknum gegn Slóvakíu, virtust ætla að halda áfram og að 4. og neðsta sæti riðilsins yrðu örlög liðsins þessa undankeppnina.

 

Það alltsaman lagaðist hinsvegar snemma í þessum leik. Lið Portúgals virtist bæði þreytast mikið og safna ansi mörgum villum að sér með stífri pressuvörn. Þessu svaraði íslenska liðið með því að setja stig á töfluna og berjast vel varnarlega. Í raun og verunni var möguleiki fyrir Portúgal að komast aftur inn í leikinn allt þangað til að tæpar 2 mínútur voru eftir, en Ísland hélt út og kláraði þennan, 65 54.

 

Hetjan

Atkvæðamest íslensku stúlknannna var afmælisbarnið Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, en hún skoraði 16 stig og tók 8 fráköst á þeim tæpu 37 mínútum sem að hún spilaði í leiknum. Fullt mikið þó að kalla hana hetjuna, því í raun var íslenska liðið heilt yfir gott, fengu framlag frá flestum leikmönnum í dag.

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn #1

 

Myndasafn #2

 

Umfjöllun, mynd / Davíð Eldur