Tvö stig í sarpinn hjá Njarðvík í kvöld eftir sigur á Haukum, lokatölur 98-88 eftir jafnan og spennandi leik í Ljónagryfjunni. Landsliðskempan Logi Gunnarsson fór fyrir Njarðvíkingum með 34 stig í kvöld en Sherrod Wright var með 33 stig í liði Hauka. Stóra myndin í kvöld var að Njarðvík tókst að láta Hauka hlaupa með sér og Hafnfirðingar sprungu á því í stað þess að þröngva Njarðvíkingum í hægari leik og leggja meiri áherslu á teigboltann.

Fyrri hálfleikur var áhorfendavænn, Haukar leiddu 53-54 í hálfleik, alls 107 stigum rigndi þarna inn og að sama skapi var varnarleikur beggja aðila ekkert fagnaðarefni fyrir þjálfarana.

Hálfleikstölur:

Njarðvík: Logi Gunnarsson 22 stig, 2 stoðsendingar. Björn Kristjánsson 10 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar.
Haukar: Sherrod Wright 23, 6 fráköst, 2 stoðsendingar

Skotnýting Njarðvík
Tveggja stiga 55% – þriggja stiga 56% – víti 50%
Skotnýting Haukar
Tveggja stiga 63% – þriggja stiga 36% – víti 57%

Stefan Bonneau tók myndarlega rispu fyrir heimamenn í þriðja leikhluta en Sherrod og Haukar leiddu samt sem áður 69-74 fyrir fjórða hluta. Atkinson fékk dæmt á sig tæknivíti í leikhléinu milli þriðja og fjórða svo Haukar komu með smá meðbyr inn í lokasprettinn.

Í fjórða leikhluta voru heimamenn fljótir að jafna og tóku svo forystuna og héldu henni út leikinn. Stefan Bonneau gerði endanlega út um leikinn með þrist þegar 15 sekúndur voru til leiksloka. Framfaramerki á Njarðvíkingum sem hafa undanfarið í tvígang lent í jöfnum leik og misst þá frá sér á lokasprettinum en í kvöld varð annað uppi á teningnum.

Kristján Leifur Sverrisson er sterk innkoma hjá Hafnfirðingum þessi misserin, líkast til fáir ef nokkrir sem leggja stráksa í „sjómann“ í deildinni. Hann skilaði 8 stigum og 7 fráköstum í kvöld og verður fróðlegt að sjá hvernig hann þróar leik sinn enn frekar með Hafnfirðingum. Sherrod var frábær en rauðir horfðu helst til of mikið til hans í kvöld. Haukar hefðu átt að huga betur að því að setja leikinn inn í teig og koma Njarðvikingum í meiri vandræði þar en í stað þess voru það Njarðvíkingar sem stýrðu bróðurpart leiksins og því voru Haukar á of miklum hlaupum.

Njarðvíkingar fá meira jafnvægi í sinn leik með tilkomu Atkinson, það breytist þó ekki að það er áskorun fyrir Daníel þjálfara að hantera með mínúturnar á milli Bonneau og Atkinson. Jón Arnór Sverrisson er epli sem fellur ekki langt frá eikinni, varnartilburðir stráksa vógu þungt á lokasprettinum í kvöld en eins og glöggir vita er varnarmaskínan Sverrir Þór Sverrisson faðir kauða og kæmist varla framhjá syni sínum í dag, það er 1 á 1 rimma þar sem ekki yrði mikið skorað. Sigurinn í kvöld var skref fram á við fyrir Njarðvík þetta tímabilið, þeir kláruðu jafnan leik en hafa lítinn tíma til þess að fagna þessum sigri því næsti slagur er í DHL-Höllinni!

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Gangur leiksins:
9-6, 20-13, 25-23
31-27, 37-34, 53-54
57-57, 66-71, 69-74
78-78, 83-82, 98-88.

Mynd/umfjöllun: nonni@karfan.is