Haukar sigruðu Keflavík nokkuð örugglega, 96-76, á heimavelli sínum að Ásvöllum í 8. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn eru liðin því jöfn í 8.-10. sæti deildarinnar með 3 sigurleiki hvort úr fyrstu 8 umferðunum.

 

 

Aðeins annað liðið mætt

Strax í byrjun leiksins var ljóst að Haukar ætluðu að selja sig dýrt. Voru vel með á nótunum báðumegin á vellinum. Keflavík hinsvegar virtist eiginlega ekki vera mætt, töpuðu heilum 7 boltum í fyrsta leikhlutanum á meðan að hinumegin á vellinum voru þeir að leyfa Haukum að skora körfur í öllum regnbogans litum. Þegar að leikhlutinn endaði var staðan 24-15 fyrir heimamönnum og tveir af byrjunarliðsleikmönnum Keflavíkur, Magnús Már Traustason (2) og Reggie Dupree (3) komnir í villuvandræði.

 

Vonin

Annar leikhluti þessa leiks er mögulega sá eini sem að segja mætti að gestirnir úr Keflavík hafi spilað af einhverju viti. Sóknarleikur þeirra virtist ganga betur, fleiri en bara Amin og Hörður voru að skora og allt leit út fyrir að Haukar væru að hleypa þessu í jafnan leik. Komust 4 stigum næst þeim áður en að Haukar skelltu aftur í lás og fóru aftur að negla niður skotum sínum. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik voru Haukar aftur komnir við stýrið, 12 stiga forysta, 48-36.

 

Vendipunkturinn

Í þriðja leikhlutanum settu Haukar síðustu naglana í kistu Keflavíkur. Sigruðu leikhlutann 23-16 og voru þá komnir með 19 stiga forystu. Keflavík reyndar, undir lokin náðu að skera þá forystu aðeins niður, munurinn rétt um 10 stig þegar að nokkrar mínútur voru eftir, en það var helst til of seint og trúin á að þeir gætu gert einhverja alvöru úr þeirri endurkomu var lítil. Fór svo á endanum að Haukar sigldu öruggum 96-76 stiga sigri heim

 

Kjarninn

Haukar virtust vera með kveikt á öllu í dag á meðan að frammistaða Keflavíkur verður að teljast döpur. Haukarnir eru mun betra lið heldur en sést hefur til þeirra í byrjun móts og þeir sýndu það í dag. Að sama skapi má velta fyrir sér hvaða áhrif það sé að hafa á Keflavík að vera að fá Hörð Axel Vilhjálmsson aftur inn í liðið hjá sér. Vafalaust er hann einn besti leikmaður landsins, það er bara spurning hvað það tekur langan tíma fyrir þá að koma liðinu saman með honum.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar fóru í 37 skipti á gjafalínuna í leiknum á móti aðeins 18 skiptum Keflavíkur. Það segir að eitthvað um hversu árásagjarnir leikmenn Hauka voru á körfuna í dag í samanburði við æið Keflavíkur.

 

Hetjan

Sherrod Wright var frábær í góðu liði Hauka. Skoraði 33 stig, tók 13 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á þeim rúmu 36 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

 

Mynd / Bára Dröfn

 

Viðtöl: