Keflavík sigraði Hauka örugglega í Schenkerhöllinni í kvöld þegar liðin áttust við í 10. umferð Domino‘s deildar kvenna. Hlutskipti liðanna í deildinni eru ólík þar sem Keflavík er í hörkubaráttu um toppsætið en Haukar sitja nærri botninum og mátti því búast við að á brattann yrði að sækja fyrir heimakonur í kvöld. 

Þáttaskil
Gestirnir frá Keflavík gáfu tóninn strax í byrjun leiksins og skoruðu fyrstu sjö stig hans. Þær pressuðu vel á Hauka sem komust hvorki lönd né strönd í sókninni og voru ekki búnar að skora nema 2 stig þegar rúmar 5 mínútur voru liðnar af leiknum. Haukastúlkur reyndu að bíta frá sér en virtust ekki hafa fulla trú á verkefninu. Eftirleikurinn því nokkuð auðveldur fyrir Keflavík sem sigraði örugglega með 30 stigum, 46-76.

Tölfræðin lýgur ekki
Líkt og lokatölurnar gefa til kynna voru Keflvíkingar með yfirhöndina í velflestum tölfræðiþáttum. Mest er munurinn á skotnýtingu liðanna þar sem Keflavík er með 60% nýtingu í tveggja stiga skotum (24/40) og 25% nýtingu í þriggja stiga skotum (6/24) á meðan skotnýting Hauka var 29% í tveggja stiga skotum (15/52) og 12% í þriggja stiga skotum (3/24).

Hetjan
Emilía Ósk Gunnarsdóttir fór fyrir liði Keflavíkur eins og svo oft áður á tímabilinu og skoraði 17 stig, stal 7 boltum og tók 5 fráköst á þeim 24 mínútum sem hún spilaði. Þá átti Salbjörg Ragna Sævarsdóttir góðan leik fyrir Keflavík, setti 13 stig og tók 4 fráköst.

Kjarninn
Eftir úrslit leikjanna í kvöld situr lið Keflavíkur eitt í efsta sæti deildarinnar með 16 stig eftir 10 leiki. Haukar sitja í 7. sæti með 6 stig og einungis tveimur stigum frá botnsætinu. Bæði lið mættu til leiks með nýja erlenda leikmenn eftir landsleikjahlé. Ariana Moorer virtist falla ágætlega inn í leik Keflavíkur og skilaði 9 stigum, 12 fráköstum og 4 stoðsendinum á þeim rúmu 22 mínútum sem hún spilaði í kvöld. Kelia Shelton fann sig ekki nægilega vel í fyrri hálfleik en efldist eftir því sem leið á leikinn og endaði með 15 stig, 12 fráköst og 2 stoðsendingar fyrir Hauka.

Myndir úr leik

Tölfræði leiks