Jólin eru komin í Keflavík því tveir sigrar hafa unnist gegn höfuðandstæðingi þeirra úr Njarðvík. Fyrst í deildinni og nú í kvöld í 32 liða úrslitum Maltbikarins fyrir fulltri TM-Höll. Þessi grannaglíma undirstrikaði hve gaman getur verið að mæta á leiki þessara liða en þetta var hörku slagur, mikið af sveiflum og úrslitin réðust ekki fyrr en í andarslitrum leiksins. Lokatölur 97-91 fyrir Keflavík þar sem Keflavík vann upp 44-60 forystu Njarðvíkinga!

Það helsta

Heimamenn opnuðu betur, komust í 7-2 en Njarðvíkingar tóku þá við sér og leiddu 20-22 eftir fyrsta leikhluta. Reggie Dupree var virkur á báðum endum vallarins Keflavíkurmegin. Davíð Páll Hermannsson kom sterkur af bekknum hjá Keflavík í fjarveru Stevens sem var í villuvandræðum, Davíð með 6 stig og 6 fráköst í fyrri hálfleik. Skotmaskínan í Njarðvík komst þó á sporið og með 10 þristum í 20 tilraunum í fyrri hálfleik leiddu gestirnir úr Njarðvík 44-57 í leikhléi og nokkuð ljóst að þeir Gunnar Einarsson og Hjörtur Harðarson myndu segja sitthvað um varnarleik sinna manna í leikhléi.
Félagarnir Páll Kristinsson og Logi Gunnarsson lokuðu fyrri hálfleik með NFL-tilþrifum, Páll með innkast yfir þveran völlinn sem Logi greip og náði af teigskoti á 0,8 sekúndum og hann vildi niður við mikinn fögnuð gestanna.

Hálfleikstölur:
Keflavík: Reggie Dupree – 22 stig, 7 fráköst – Davíð Páll Hermannsson 6 stig, 6 fráköst
Njarðvík: Stefan Bonneau – 17 stig, 5 fráköst – Jóhann Árni og Björn 9 stig

Fráköst í hálfleik: Keflavík 24 – 19 Njarðvík

Skotnýting í fyrri hálfleik:
Keflavík: 50% tveggja – 21% þriggja – 73% víti
Njarðvík: 43% tveggja – 50% þriggja – 83% víti

Í þriðja leikhluta tóku Keflvíkingar á rás. Njarðvík komst í 44-60 og allur meðbyr virtist þeirra megin gegn 2-3 svæðisvörn Keflavíkur en þá fóru heimamenn afur í maður á mann vörn og lokuðu á gestina sem gerðu bara 12 stig í leikhlutanum. Keflavík vann þriðja hluta 29-12 og leiddu 73-69 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Stevens náði takti við leikinn, fór að setja góð teigskot fyrir Keflavík sem jók á dýptina í sóknarleik heimamanna, fjórði var hnífjafn og menn fóru að týnast af velli með fimm villur. Flautið reyndar nokkuð mikið í kvöld og hefði mátt vera minna á báða bóga.

Í stöðunni 85-83 fyrir Keflavík misstu Njarðvíkingar tvö víti þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka, heimamenn svöruðu því með fjórum stigum á örfáum sekúndum og ísuðu þar með leikinn endanlega og lokuðu honum svo 97-91.

Vendipunkturinn
Í stöðunni 44-60 þegar Logi Gunnarsson hafði sett niður þrist fyrir Njarðvík var heimamönnum nóg boðið og þeir hófu að saxa niður forskotið. Í vel flestum þeirra aðgerðum kom maður leiksins, Reggie Dupree, eitthvað við sögu en þeir Guðmundur og Stevens áttu einnig mjög sterkar rispur þennan leikhluta fyrir Keflavík. Lokahnykkurinn var svo þegar Njarðvík mistókst að jafna leikinn í 85-85 af vítalínunni og Keflavík skellti á þá fjórum stigum í röð á nokkrum sekúndum með innan við tvær mínútur eftir af leiknum.

Þungur hnífur
Eftir fjögurra mínútna leik fékk Amin Stevens þrjár villur í liði Keflavíkur. Amin lék ekkert með Keflavík það sem lifði af fyrri hálfleik en lauk þó leik með 19 stig og 11 fráköst. Ekki bjart í þeim efnum framan af en hann kom aftur sterkur inn í liðið og það skipti miklum sköpum í síðari hálfleik.

Maður leiksins
Vafalítið Reggie Dupree, fantagóður varnarleikur hjá kappanum sem skilaði einnig af sér 28 stigum, lék allar 40 mínútur leiksins, var með 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Þeir eru farnir að kalla hann „Okkar eigin Bonneu“ í Keflavík.  

Ánægjulegt
Við erum að tala um 32 liða úrslit bikarkeppninnar og það var fullt hús í Keflavík. Vel gert!

Tölfræði leiksins

Gangur leiksins:
7-2, 7-7, 9-14, 20-22
25-24, 31-34, 37-46, 44-57
48-62, 56-65, 66-69, 73-69
81-77, 85-80, 85-83, 90-83
97-91

Guðmundur Jónsson – Keflavík

Daníel Guðni Guðmundsson – Njarðvík

 

Myndir og umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson
Viðtöl/ Skúli Sigurðsson