Njarðvík leikur gegn Stjörnunni í kvöld er Dominos deild kvenna fer aftur af stað eftir rúmlega tveggja vikna landsleikjahlé. Njarðvík vann fyrri leik liðanna en leikurinn í kvöld fer fram í Garðabæ.

 

Ljóst er að Carmen Tyson-Thomas mun leika með Njarðvík í kvöld en hún meiddist gegn Grindavík í bikarleik í byrjun mánaðar. Eftir það missti hún af tveim leikjum með liðinu en hún hefur verið algjör prímusmótor í liðinu. Hún er með 38,9 stig, 16,3 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í sjö leikjum.

 

Carmen hefur væntanlega fylgst með landsliðinu í hléinu en hún sagði í samtali við Karfan.is fyrir nokkru að hún hefði áhuga á að leika með landsliðinu á næstu árum.  

 

Það er því ljóst að koma Carmen mun hafa gríðarlega mikil áhrif á Njarðvíkur liðið sem hefur ekki unnið án hennar. Njarðvík situr í fjórða sæti deildarinnar nokkuð óvænt með fjóra sigra eftir níu leiki.