Njarðvíkingar taka á móti Íslands- og bikarmeisturum Snæfells í Domino´s-deild kvenna kl. 15.30 í dag. Nýiðarnir verða enn að fella sig við fjarveru Carmen Tyson-Thomas sökum meiðsla.

Agnar Mar Gunnarsson þjálfari Njarðvíkurliðsins sagði við Karfan.is í dag að Carmen yrði fjarverandi í leiknum í dag en að hún hafi farið í myndatöku í gær og niðurstöður úr þeirri myndatöku sé væntanlegar næsta mánudag.

„Þetta lítur samt betur út en talið var í fyrstu, læknar tjáðu okkur að ekki væri hægt að segja fleira að svo stöddu fyrr en niðurstöður úr myndatökum væru komnar en var jákvæður á að þetta væru ekki krossbönd eða liðþófi,“ sagði Agnar.