Njarðvík vann í kvöld sinn fimmta sigur á tímabilinu er liðið mætti Stjörnunni í Garðabæ. Leikurinn var jafn framan af en Njarðvík náði yfirhöndinni í öðrum leikhluta er Stjörnunni gekk illa að koma boltanum í körfuna. 

 

Carmen Tyson-Thomas átti enn einn stórleikinn og náði yfir 50 stig. Aðrir leikmenn Njarðvíkur lögðu sig einnig fram og þá sérstaklega varnarlega. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má sjá hér að neðan:

 

Þáttaskil:

Njarðvík sem hafði leitt allan seinni hálfleikinn hafði fengið á sig gott áhlaup frá Stjörnunni sem hafði náð muninum niður í fjögur stig þegar fimm mínútur voru eftir. Þá fær Danielle Rodriquez sína fimmtu villu, hún hafði haldið sóknarleik Stjörnunnar uppi ásamt Rögnu Margréti. Við brottrekstur Danielle átti Stjarnan ekki möguleika, allur vindur var úr þeim og Njarðvík jók muninn. Það verður þó ekki tekið af Njarðvík að baráttan og viljinn var þeirra megin nánast allan leikinn og er sigurinn verðskuldaður.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Njarðvík tók 23 sóknarfráköst i leiknum og mun fleiri varnarfráköst. Stjarnan er á pappírum með sterkari leikmenn undir körfunni og því ótrúlegt að þær tapi þessari baráttu. Skotnýting beggja liða er ákaflega döpur og mikið af vondum ákvörðunum teknar sóknarlega.

 

Hetjan:

Hvað er hægt að segja um Carmen Tyson-Thomas? 50 stig, 18 fráköst, 5 stoðsendingar auk þess að fiska 18 villur. Þetta er í þriðja skipti í átta leikjum hjá Carmen sem hún skorar yfir 50 stig. Mögnuð í körfubolta en það var hreinlega eins og það skipti ekki hversu miklu máli hvað margir væru í henni hún hitti alltaf og sérstaklega í seinni hálfleik. Auk Carmen átti María Jónsdóttir algjörlega frábæran leik.

 

Kjarninn:

Frábær útisigur Njarðvíkur sem situr sem fastast í fjórða sæti deildarinnar, mun ofar en allar spár höfðu spáð. Njarðvík lék vel í dag og urðu ofan í í baráttunni. Varnarleikurinn var þolinmóður og gáfu lítið af auðveldum skotum. Sóknarlega var engin örvænting þó lítið gengi í fyrri bylgjunni og komu mörg stig úr sóknarfráköstum og á rólegheitum. Stjarnan aftur á móti verður að fá meira framlag frá fleiri leikmönnum. Danielle og Ragna Margrét voru einu sem tóku á skarið sóknarlega. Viktoría Líf og Jónína Þórdís komu með líf í leik Stjörnunnar en það vantaði svo mikið meira.

 

Tölfræði leiksins.