Valur og Haukar öttu kappi að Hlíðarenda í dag. Fyrir leikinn sátu liðin í 6. og 7. sæti deildarinnar og sigur því mikilvægur í botnbaráttunni.

 

Kaflaskiptur leikur

Valur náði snemma undirtökum í leiknum og leiddi stærstan hluta fyrrihálfleiks. Þrátt fyrir að Haukar ættu ekki í vandræðum með að leysa pressuna gekk þeim illa á hálfum velli á móti. Þær hittu illa utan af vell, voru aðeins með 15% þriggja stiga skotnýtingu í fyrrihálfleik og nýttu sér ekki veikleika svæðisvarnar til að ná í sóknarfráköstin. Þegar lið á í erfiðleikum á hálfum velli og skorar ekki stig úr hraðaupphlaupum er útliði ekki mjög bjart. Enda voru Haukar 11 stigum undir í hálfleik.

 

Haukar mættu mun grimmari til seinni hálfleiks, spiluðu pressuvörn sem setti Valskonur út af laginu. Trekk í trekk drippluðu leikmenn Vals beint í trappið eða sendu glórulausar sendingar upp völlinn. Á sama tíma fóru Haukar að setja niður skotin sín og unnu þriðja leikhluta 29-16 og komu sér þanni inn í leikinn aftur. Það var allt í járnum í fjórða leikhluta. Haukar héldu í sókn, tveimur stigum undir þegar 18 sekúndur voru eftir en náðu ekki að nýta sóknina og sigurinn því Vals. Lokatölur 74-72.  

 

Hetjan

Mia Loyd var potturinn og pannann í sóknarleik Valskvenna, var með 34 stig og tók þar að auki 16 fráköst, helmingi fleiri en næsti leikmaður í Vals. Dagbjört Dögg Karlsdóttir átti einnig flottan leik hjá Val, skoraði 22 stig og vann vel í vörninni.

 

Tölfræðin

Þegar tölfræðin er skoðuð er athyglisvert að erlendir leikmenn beggja liða höluðu inn helming framlagsstiga liðanna. Bæði lið þurfa sárlega framlag úr fleiri áttum vilji þau ná meiri stöðugleika og færa sig ofar í töflunni.

 

Kjarninn

Það verður að segjast eins og er að þó leikurinn hafi verið spennandi og úrslitin ekki ráðist fyrr en á síðustu sekúndunum þá skorti hann gæði, lítið var um tilþrif og skemmtanagildið þar af leiðandi ekki ýkja hátt. Örfáar hræður voru á pöllunum og lítil stemning. Ætli lið að vekja áhuga á íslenskum kvennakörfubolta og trekkja að áhorfendur verða þau að gera betur, jafnt innan vallar sem og í umgjörðinni.

 

 

Umfjöllun / Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir

Mynd / Torfi Magnússon