Bob McKillop þjálfari Davidson háskólans í Bandaríkjunum hefur þjálfað frábæra leikmenn í gegnum tíðina og líklega einn besta leikmann í sögu körfuboltans, Stephen Curry. Í dag þjálfar hann meðal annars Jón Axel Guðmundsson leikmann Grindavíkur og íslenska U20 landsliðsins. 

 

McKillop hefur þjálfað Davidson Wildcats frá árinu 1989 og er að mörgum talin einn af bestu þjálfurum háskólaboltans. Karfan.is er statt í Norður-Karólínu þar sem okkar maður Jón Axel leikur sinn fyrsta leik fyrir Davidson í kvöld. Bob McKillop ræddi við Karfan.is um Jón Axel, framtíð hans og leik kvöldsins í dag. 

 

„Við erum ánægð með hversu hæfileikaríkur hann er. Hann er enn betri en við héldum, við höfum helst tekið eftir er að hann er svo fljótur að meta aðstæður á vellinum. Sem segir okkur að hann sé vel þjálfaður, gáfaður og hafi metnað til að verða góður leikmaður.“ sagði McKillop um hvernig Jón Axel hafi komið inní Davidson liðið. 

 

„Hann er með mikið vinnusiðferði og körfuboltagáfur auk þess að vera gríðarlegur liðsmaður.“

 

Jón Axel kom til Norður-Karólínu í sumar eftir nokkuð mörg tímabil í Grindavík en Billop sagðist ekki geta spáð fyrir um framtíð Jóns. Ekki frekar en annars leikmanns sem hann hafi þjálfað fyrir nokkrum árum sem er á ansi góðum stað í dag.

 

„Ég get ekki spáð svo langt fram í tímann. Stephen Curry var hérna sem nýliði eins og Jón Axel og ég gat alls ekki spáð fyrir um hvert hann er kominn í dag. Við teljum að Jón Axel muni spila margar mínútur sem nýliði og það mun bara undirbúa hann vel undir næstu fjögur ár.“ 

 

Davidson Wildcats mætir Appalachian State Mountaineers í fyrsta leik háskólatímabilsins í kvöld en Jón Axel setti 13 stig og 4 stoðsendingar í æfingarleik gegn Gunnari Harðarsyni og félögum í Belmont Abbey á dögunum. Bob McKillop staðfesti það við Karfan.is að Jón Axel myndi byrja þennan leik. 

 

„Jón Axel mun byrja í kvöld. Hann hefur unnið fyrir því, hann spilaði vel í æfingarleikjunum og á því skilið að vera í byrjunarliðinu í fyrsta leik."

 

Viðtal Skúla Sig við McKillop í heild sinni má sjá hér að neðan:

 

Viðtal / Skúli Sigurðsson – Skuli@karfan.is 

Mynd / warriorsworld.net