Breiðablik bar sigurorð af Fjölni í 1. deild kvenna í Smáranum í kvöld, 56-55, í æsispennandi leik. Þetta var annar leikur liðanna í deildinni aukinheldur sem liðin hafa mæst í Maltbikarnum. Í öll skiptin hafa Blikastúlkur farið með sigur af hólmi en í kvöld var munurinn sá naumasti sem hugsast getur eða bara eitt stig. Staðan var í hálfleik, 30-24, Blikastúlkum í hag.

Af hverju vann Breiðablik?
Það má með sanni segja að Blikarstúllkur hafi unnið leikinn með góðri baráttu í blálokin. Blikinn Sóllilja braust af harðfylgi í gegnum vörn Fjölnis undir lok leiksins í stöðunni, 53-55, og skoraði og fékk víti að auki. Eins og góðum leikmönnum sæmir setti hún vítið niður og tryggði Blikum sætan sigur, 56-55. Þetta var ekki besti leikur Blika en að sama skapi var þetta efalítið besti leikur Fjölnisstúlkna af þessum þremur viðureignum sem þær hafa háð við Kópavogsliðið í vetur og auðvitað afar svekkjandi að tapa með minnsta mun.

Þær sem skripluðu á skötu
Það má segja að sóknarleikur liðanna séu skötuskriplarar kvöldsins. Fjölnisstúlkum voru ansi mislagðar hendur í fyrri hálfleik (og líka í 4. leikhluta) og skoruðu aðeins 24 stig í honum. Þær náðu ekki að láta sóknarkerfin rúlla alla leið og urðu því sóknir þeirra fálmkenndar og oft og tíðum furðulegar. Þeim gekk mun betur í upphafi seinni hálfleiks en þá má segja að Blikastúlkur hafi tekið við sem skötuskriplaarar. Þær settu aðeins 26 stig niður í seinni hálfleik og áttu afleitan þriðja leikhluta sem vekur upp vondar minningar hjá gömlum Blikahundi eins og þeim sem nú einmitt hamast á lyklaborðinu. 

Þær sem flutu á feitum hval
Sóllilja hjá Blikum var sjóðandi heit (ég ætla ekki að segja að hún hafi verið á eldi!) í fyrri hálfleik og skoraði 16 stig af 30 og alls 23 stig í leiknum auk þess að taka 12 fráköst. Þá gerði hún 11 stig í fyrsta leikhluta eða jafn mikið og allt Fjölnisliðið! Ísabella átti líka flottan leik hjá Blikum, setti 17 stig og reif niður 12 fráköst. 
Hjá Fjölnisstúlkum báru Beggó, Fanney og Margrét uppi sóknina og gerðu alls 42 stig og áttu góðan leik; Beggó tók aukinheldur 8 fráköst, Margrét var með 50% 3ja stiga nýtingu & Fanney var með fyrirtaks skotnýtingu sömuleiðis.

Hvað gerist næst?
Það sem gerist næst er að undirritaður lokar lyklaborðinu fljótlega og fær sér eina svallkalda Pepsi Max. Góðar stundir – áfram karfa!

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gylfi Gröndal

Mynd / Bjarni Antonsson