Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson verður mögulega á Facebook Live einhverja leiki í vetur með háskólaliði Davidson! Í frétt á skólasíðu Davidson segir að Atlantic 10 riðillinn muni fyrstur riðla í bandaríska háskólaboltanum bjóða upp á valda leiki á tímabilinu á Facebook Live.

Í fréttinni kemur fram að um valda leiki sé að ræða, ekki alla, og að í heild gætu þeir orðið 10-15 talsins í beinni á Facebook. Dagskrá sýninganna verði auglýst síðar. 

Greint verður frá dagskránni á Facebook-síðu Atlantic 10 riðilsins en forsvarsmenn riðilsins vinna nú með Facebook við nánari útfærslu á sýningunum. 

Þetta frumkvæði Atlantic 10 riðilsins bætir enn við öflugt fjölmiðlastarf sem þar fer fram sem árlega er talið á meðal þeirra bestu í háskólanum í Bandaríkjunum. 

Gleðitíðindi fyrir áhugasama sem höfðu þegar ætlað sér að fylgjast með Grindvíkingnum knáa hjá Davidson…og vitaskuld alla hina líka.