Keflavík réð á dögunum Gunnar Einarsson sem aðstoðarþjálfara karlaliðs félagsins í vetur. Gunnar ættu flestir körfuknattleiksunnendur að þekkja, en hann spilaði með sigursælu liði Keflavíkur frá tíunda áratug síðustu aldar allt fram til þar síðasta tímabils, þegar hann lagði skóna á hilluna og snéri sér alfarið að styrktarþjálfun. Einnig spilaði hann rúma 30 leiki fyrir íslenska landsliðið, en hann er einmitt einnig styrktarþjálfari þess í dag.

 

Upp kom sú staða nú í haust að aðalþjálfari liðsins, Sigurður Ingimundarson, þurfti sökum heilsufarsástæðna að taka sér ótímabundið leyfi. Þá var það aðstoðarmaður hans, Hjörtur Harðarson, sem að tók við aðalþjálfarastöðunni. Sem átti fyrst að vera tímabundin, en það hefur nú verið staðfest við okkur að Hjörtur verði aðal þjálfari liðsins í vetur.