Í gær féll frá einn af okkar allra bestu mönnum.  Pétur Pétursson osteopati kvaddi eftir harðvítuga baráttu við krabbamein sem loks lagði hann að velli aðeins 51 ára gamlan. Undirritaður kynntist Pétri fyrir ca 5 árum síðan, en Pétur hafði hinsvegar þann eiginleika að þér fannst þú hafa þekkt hann alla þína ævi. Líkt og margir íþróttamenn og aðrir sem kenndu sér ills í skrokknum fór ég í tíma til hans til að "stilla mig af" eins og hann orðaði það. Tíminn byrjaði ætíð með knúsi, þannig var Pétur. Ef þú réttir fram höndina til handabands þá dró hann mann að sér og knúsaði.  Maður áttaði sig fljótlega á þessu og þegar þú hittir Pétur þá þýddi það ævinlega þéttingsfast knús.   Töframaður, er í raun orð sem lýsa honum og vinnubrögðum hans best.Hann hafði einhverja óútskýranlega guðsgjöf í fingrum sínum. Hver íþróttamaðurinn (sem og aðrir) á fætur öðrum sem hafði verið úrskurðaður af læknum til að hvíla næstu vikurnar kom af bekknum frá Pétri eins og nýsleginn túnskildingur. Tilbúin í öll þau slagsmál sem krafðist í íþróttinni og til að vinna titla.

 

Talandi um þá var Pétur ekki bara listamaður í að koma mönnum í stand heldur fylgdi honum einnig ákveðin bikarlukka. Pétur var einstaklega hjartahlýr og betri sál var vart hægt að finna. Það sannaðist á styrktarkvöldi sem haldið var í íþróttahúsi Keflavíkur fyrir fáeinum vikum þegar húsið troðfylltist af ólíku fólki sem Pétur hafði á einn eða annan hátt snert með persónutöfrum sínum eða þeim töfrum sem bjuggu í höndum hans. Þeir deyja ungir sem guðirnir elska og líkast til hefur mikið legið við hinumegin. Péturs verður saknað en minningar um einstakan dreng lifa og birta upp skammdegið sem veturinn færir.  Undirritaður fyrir hönd Karfan.is biður fyrir samúðarkveðju til fjölskyldu Péturs og biðjum við guð að styrkja þau í sorginni.  Hvíl í friði Pétur Pétursson