"Ég hef ekki verið að mæta á æfingar með liðinu þar sem ég þarf að huga að heilsu minni, ekkert alvarlegt samt. En samkvæmt læknisráði og mínu eigin þá þarf ég aðeins að taka því rólega og svo á þetta allt eftir að koma í ljós" sagði Sigurður Ingimundarson einn sigursælasti þjálfari íslensks körfuknattleiks sem neyðist nú til að taka sér smá pásu frá leiknum vegna heilsu sinnar.  Sigurður er þjálfari Keflvíkinga og hefur verið það síðastliðna tvo áratugi meira og minna með hléum þar sem hann tók að sér verkefni í Svíþjóð og svo fór hann "yfir lækinn" og þjálfaði nágrannalið Njarðvíkinga.  "Hjörtur er með liðið sem stendur og það eru frábærar fréttir að hann sé kominn aftur inní starfið enda þræl klár.  Ég býst nú við því að koma tilbaka í þjálfun liðsins en tíminn þarf hinsvegar að leiða það í ljós og á meðan heldur Hjörtur um taumana." sagði Sigurður ennfremur. Sá Hjörtur sem Sigurður talar um er Hjörtur Harðarson sem lék með Keflvíkingum og svo Grindvíkingum.  Hjörtur þjálfaði svo kvennalið Keflavíkur tímabilið 2003-2004 og þjálfaði einnig lið Þórsara á Akureyri. 

 

Keflvíkingar hefja leik þetta árið í Ljónagryfjunni þegar þeir heimsækja nágranna sína í Njarðvík.  Keflvíkingar hafa enn ekki kynnt til sögunar nýjan erlendan leikmann liðsins en mikið hefur gengið á í þeim efnum. "Það er einn núna sem við erum að negla og bíðum við eftir að allir viðeigandi pappírar gangi í gegn. En þetta árið hefur verið strembið í þessum efnum og hef ég aldrei lent í öðru eins. Við vorum búnir að gera munnlegt samkomulag við tvo leikmenn sem hættu svo við þegar skrifa átti undir." sagði Sigurður ennfremur.