Seinni umferð undankeppni Eurobasket 2017 hefst í kvöld með heilli umferð. Eins og staðan er núna er Ísland ekki meðal þeirra þjóða sem taka þátt í mótinu að ári en margt getur breyst og munar ákaflega litlu á liðunum.

 

Síðasti útileikur íslendinga á mótinu fer fram í hinni fögru Fribourg í Sviss en þar hefur meðal annars Keflavík spilað evrópuleik árið 2005. Leikurinn er gegn Sviss sem Ísland vann í fyrsta leik riðilsins 88-72.

 

Sviss er eitt af elstu landsliðum í körfubolta í heimi. Þeir eru eitt af átta stofnþjóðum FIBA og komst á fyrstu árum þess á Eurobasket og ólympíuleika til ársins 1955 en svo ekki sögunni meir.

 

Sviss vann sterkan sigur á Rússlandi í undankeppni Eurobasket 2015 og er því ljóst að um verðugan andstæðing er að ræða. Liðið er sem stendur í 94 sæti á styrkleikalista FIBA en Ísland í því 81.

 

Í fjórtán manna hóp Sviss eru tólf sem spila í svissnesku deildinni. Mladjan bræðurnir eru gríðarlega sterkir, Dusan er skotbakvörður sem getur skotið gríðarlega vel og bróðir hans Marko er sex árum yngri og er gríðarlegt efni. David Ramsier hefur verið þeirra sterkasti leikmaður hingað til með 16 stig og 4 fráköst að meðaltali í leik.

 

Það sást í fyrri leiknum gegn Sviss að þetta eru engir auðkvissar í körfubolta. Margir sterkir leikmenn eru í liðinu og ef íslenska liðið mætir ekki að fullum krafti í leikinn er voðinn vís.

 

Kýpur sigraði Sviss í síðasta leik eftir að Sviss hafði verið yfir með 14 stigum þegar sex mínútur voru eftir. Vegna þessa getur munað miklu að sigra með eins miklum mun og mögulegt er en ef Sviss nær þriðja sætinu þá munu leikir okkar gegn þeim vega þyngst í hvort Ísland kemst á Eurobasket. Það er að segja ef Ísland lendir í öðru sæti riðilsins en við vonum að með góðri frammistöðu í seinni umferð keppninnar takist íslenska liðinu að hirða fyrsta sætið.

 

Leikurinn hefst klukkan 15:30 að íslenskum tíma en vegna þess að engin  sjónvarpsstöð sýnir leikinn verður hann í beinni á Rúv.is.