Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson mun spila sinn 100. landsleik er liðið mætir Belgíu í kvöld. Hlynur lék sinn fyrsta landsleik fyrir rúmum 16 árum og hefur verið einn af burðarásum liðsins síðustu ár.

 

Þrettán íslenskir leikmenn hafa náð í 100 leikja hópinn fyrir A-landslið Íslands – Það eru þeir: Guðmundur Bragason, Valur Ingimundarson, Jón Kr. Gíslason, Torfi Magnússon, Guðjón Skúlason, Jón Sigurðsson, Teitur Örlygsson, Friðrik Stefánsson, Herbert Arnarson, Falur Harðarson, Jón Arnar Ingvarsson auk Loga Gunnarssyni. Logi ásamt Hlyni er einmitt einu leikmennirnir sem spilað hafa 100 leiki eða meira í núverandi landsliðshóp.

 

Fyrsti landsleikur Hlyns var 23. febrúar árið 2000 gegn Makedóníu. Hlynur lék þrjár mínútur og tók þrjú fráköst í leiknum en þjálfari var Friðrik Ingi Rúnarsson. Hlynur var þá leikmaður Skallagríms en hann varð íslandsmeistari með Snæfell auk þess sem hann hefur spilað sem atvinnumaður í Hollandi og Svíþjóð. Fyrir viku gekk hann svo til liðs við Stjörnuna og mun spila þar næstu árin.

 

Í leikmanna hópi Íslands í fyrsta leik Hlyns var meðal annarra Hermann Hauksson, en í dag er sonur Hermanns, Martin Hermannsson, samherji Hlyns í landsliðinu og báðir eru þeir byrjunarliðsmenn.

 

Á síðu KKÍ segir Hlynur að hápunktur ferilsins hafi verið þátttaka landsliðsins á Eurobasket 2015. Þá segir hann að stefnan sé sett aftur á EM á næsta ári og þannig að endurskrifa íslenska körfuboltasögu um leið.

 

Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikur einnig sinn 50. landslleik í dag gegn Belgíu.

 

Leikurinn gegn Belgum verður í beinni útsendingu á RÚV2 í sjónvarpinu og á netinu á ww.ruv.is/ruv-2/beint í kvöld kl. 18:00 og lifandi tölfræði á heimasíðu mótins www.fiba.com/eurobasket2017 þar sem allar upplýsingar um undankeppnina fyrir EuroBasket 2017 er einnig að finna.