Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Kristinn Geir Pálsson íþróttafulltrúi KKÍ eru nú staddir í Helsinki í Finnlandi og eiga þeir viðræður þar við Finna og FIBA Europe vegna riðlakeppni EuroBasket 2017.

Um er að ræða samningaviðræður við finnsku mótshaldarana og FIBA Europe um þann möguleika að Ísland verði samvinnuaðili Finna í riðlakeppninni. Gangi þessar samningaumleitanir eftir eru allar líkur á því að Ísland muni leika í riðlinum sem fram fer í Finnlandi.

 

„Þetta snýst enn um að við verðum að fá að lágmarki 2000 Íslendinga á leikina okkar, það er hve mikið af gestum við getum lofað mótshaldara í stúkuna. Það auðveldar alla ákvarðanatöku ef fólk sendir okkur þátttökuáhuga á kki@kki.is og þá má pósthólfið alveg fyllast,“ sagði Hannes léttur í lundu þegar Karfan.is ræddi við hann í dag.

 

„Hægt er að semja um þessi mál, það sem verið er að gera er að tryggja miðasölu frá amk. einu gestalandi í riðlinum sem fram fer í Finnlandi. Fyrir um það bil tveimur árum var það ákvörðun FIBA Europe að hafa forkeppnina í fjórum löndum og þá gat mótshaldari unnið með einni þjóð að samstarfi innan riðilsins eins og við erum nú að kanna með Finnlandi. Þetta fyrirkomulag sem við kynntumst 2015 hafði góð áhrif,“ sagði Hannes en önnur lönd sem eru inni í myndinni fyrir Ísland eru Tyrkland og Ísrael.

 

„Upp á hagkvæmni að gera þá er lang hagstæðast fyrir Íslendinga að ferðast til Finnlands og þannig treystum við okkur til að lofa mótshaldara fleiri áhorfendum í Finnlandi heldur en nokkruntíman í Ísrael eða Tyrklandi sökum þess hve langt er þangað að ferðast. Þá hjálpar það okkur einnig gríðarlega ef fólk getur látið sambandið vita af áhuga sínum fyrir verkefninu.“

 

Á næsta ári tekur Ísland þátt í EuroBasket í annað sinn í sögunni, aðeins þrír leikstaðir koma til greina í riðlakeppninni en það eru Finnland, Tyrkland og Ísrael og skýrist það betur á næstunni hvort Ísland verði samvinnuland Finna í riðlinum í Helsinki.