Ólafur Þór Jónsson skrifar frá Nicosia

 

Nicosia er að mörgu leyti áhugaverð borg. Í annan staðinn eins og steríótýpísk Austur-Evrópu borg en einnig eins og lítil stórborg, eins undarlega og það kann að hljóma. Það er bara eitt fyrrverandi síki (trúið mér) sem er á milli þessara hluta borgarinnar.

 

Fyrsta og eina æfing liðsins í Kýpur fór fram í dag. Andinn er góður og mikil bjartsýni er yfir hópnum. Það sem  blaðamaðurinn tók sérstaklega eftir er hann skoðaði hvern krók og kima í heldur skítugri höll var að „Reykingar bannaðar“ skilti voru um alla höll.

 

 

Þegar ég segi alla höll þá meina ég alla höll. Lítil skilti við fjölmiðlastúkuna og klósettin auk stærri merkinga í hverju horni hallarinnar svo það fari örugglega ekki framhjá neinum, sama hvar hann situr. Myndir þessu til stuðnings má sjá hér að neðan.

 

Kýpverjar hafa tekið frá góðan part af stúku fyrir íslenska áhorfendur. Ekki er búist við margmenni af áhagendum íslenska landsliðsins en Kýpverjinn er við öllu búinn. Vonandi fyrir þá sem mæta á leikinn á morgun að það sé ekki gert ráð fyrir víkingaklappi og tilheyrandi látum, því þá eru yfirgnæfandi líkur á vonbrigðum.

 

Nokkrir fjölmiðlar frá Kýpur og Grikklandi voru mættir til að ræða við Craig Pedersen þjálfara og Hlyn Bæringsson fyrirliða Íslands. Kýpur er að koma úr pásu en liðið hefur ekki spilað á opinberu móti í nokkurn tíma vegna fjárhagsvandamála. Þetta er því fyrstu heimaleikur landsliðsins í langan tíma og út frá því má gera ráð fyrir nokkrum áhuga heimamanna.