Finnur Freyr Stefánsson aðstoðarþjálfari Íslands var ánægður með sigurinn gegn Kýpur í undankeppni Eurobasket. Ísland vann góðan útisigur og er með fullt hús stiga eftir tvo leiki í riðlinum.

 

„Mjög ánægður að fara héðan með sigur. Vorum búnir að kortleggja þá vel en maður veit aldrei.“ sagði Finnur og bætti við

 

„Að spila á útivelli er erfiðara. Ferðalagið sat aðeins í leikmönnum. Við erum bara þannig að við viljum spila vel og vinna. Þegar við spilum illa þá viljum við alltaf bæta okkur þó sigur hafi náðst.“

 

Ísland mætir Belgíu á miðvikudaginn á útivelli en fyrirfram var Belgía talið besta lið riðilsins.

 

„Verður virkilega erfitt. Eru miklir íþróttamenn og eru hreyfanlegir. Þeir spila svipað og við, með stóra hreyfanlega menn sem skipta og geta skotið. Spila okkar stíl og eru kannski ögn meiri íþróttamenn en við svo við þurfum að vera klókir.“

 

Jón Arnór var ekki með vegna meiðsla og sagði Finnur að það þyrfti að koma í ljós hvernig framhaldið yrði.

 

„Þetta er hnéð sem er að angra hann. Hann hefði spilað ef hann hefði getað það en hann var hreinlega bara ekki leikfær. Þurfum að sjá og vona.“