Ísland mætir Kýpur í öðrum leik undankeppni evrópumótsins í dag kl 14:00 á íslenskum tíma. Leikurinn fer fram í borginni Nicosia þar sem landsliðið hefur verið frá því á fimmtudagskvöld.

 

Finnur Freyr Stefánsson aðstoðarþjálfari Íslands var nokkuð bjartsýnn er Karfan.is náði tali af honum rétt í þessu er liðið kom af skotæfingu.

 

“Tilfinningin er ágæt, við erum að jafna okkur eftir þennan langa ferðadag í fyrradag. Það er spenna fyrir Kýpur, við erum búnir að kortleggja þá ágætlega og þetta er bara týpískur leikdagur. Maður bara bíður.“ sagði Finnur Freyr aðspurður um stemmninguna í hópnum.

 

Nicosia er heit borg, á leikdegi er um 35 gráður úti og gríðarlegur raki, gæti það haft áhrif á íslensku strákanna?

 

„Það á ekki að hafa áhrif. Loftræstingin er fín í höllinni, körfurnar stórar og stemmningin góð. Það er gaman að fá að taka þátt í þessu, salurinn er með sál, þannig við vonum að það verði mikið af fólki og góð stemmning í húsinu.“

 

„Kýpur spilaði á móti Belgíu um daginn og svo fengum við fjóra leiki af æfingamóti hér um daginn. Þannig við erum búnir að sjá nóg af þeim og þekkjum þeirra styrkleika og veikleika. Þeir eru harðir og læti í þeim.“

 

Ísland og Kýpur hafa háð margar viðureignir áður og hafa kýpverjar snúið leikjum uppí slagsmál líkt og rifjað var upp hér á síðunni í gær.

 

„Það er skap í þeim og það er hætt við því að þetta verði líkamlegur leikur þar sem tekið verður á því. Miðað við sögu liðanna þá verður þetta oft að jaðrað á milli þess að vera körfubolti eða eitthvað annað. Verðum að vera klárir og megum ekki búast við því að fá eitthvað þægilegt uppí hendurnar.“

 

„Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn. Við þurfum að byrja vel, þetta er lið sem gæti brotnað auðveldlega saman. Þeir eru klárir í körfubolta og gætu náð áhlaupum á okkur. Held við þurfum að byrja vel, enda vel og spila vel þar á milli, þá erum við í góðum málum. “ sagði Finnur að lokum og glotti.