Finnur Freyr Stefánsson aðstoðarþjálfari íslenska liðsins var ósáttur með spilamennsku sinna manna í tapinu gegn Sviss í undankeppni Eurobasket.

 

„Við vorum í góðri stöðu gegn liði sem við áttum góðan séns á að vinna. En satt best að segja var frammistaðan í dag ekki nógu góð og verðskuldaði ekki sigur. Þetta rann úr höndunum á okkur í byrjun fjórða leikhluta og við áttum bara ekki meira skilið.“ sagði Finnur

 

Ísland vann Sviss með 16 stigum í Laugardalshöllinni en allt annað var að sjá svissneska liðið í dag.

 

„Þeir gerðu þetta á fleiri leikmönnum en í leiknum gegn okkur heima. Þeir nýttu sér íþróttamennina í stöðu þrjú og fjögur á vellinum. Herjuðu á okkur undir körfunni og spiluðu saman sem lið. Mér fannst við of lengi vera að bregðast við því sem þeir voru að gera í sókninni í stað þess að þvinga þá í erfiðari hluti. Við gerðum of mikið af varnarmistökum og þetta lið á ekki að skora á okkur 83 stig.“

 

Framundan eru tveir leikir gegn Kýpur og Belgíu á Íslandi, tapið í kvöld þýðir að Ísland þarf að sækja sigur í þessum leikjum.

 

„Kosturinn er að við erum að fara heim. Við þurfum bara að byrja á að vinna Kýpur, aðeins að ná að endurstilla okkur eftir þennan leik og ná andanum. Verður gott fyrir menn að komast aðeins og sofa í sínum eigin rúmmum annað kvöld. Einbeitingin er á næsta leik.“

 

Þrír leikmenn landsliðsins hafa verið veikir síðustu daga og gat Ægir Þór til að mynda ekki tekið þátt í leiknum í dag vegna þess. Þá hefur Jón Arnór Stefánsson vera að glíma við meiðsli og missti af leikjunum gegn Kýpur og Belgíu.

 

„Jón Arnór var skugginn af sjálfum sér í dag, því miður. Hann reyndi en hann hefur verið slæmur í hnénu, hann gerði mjög mikið til að reyna að spila þennan leik og við þökkum honum fyrir það. Ægir hefði hjálpað í vörninni en Elvar aftur á móti var frábær í sókninni. Það er eins og það er bara. Við gerðum of mörg mistök í vörninni og gáfum þeim of margar auðveldar körfur.“

 

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan: