Ísland er komið á Eurobasket 2017 eftir gríðarlega góðan sigur á sterku liði Belga í Laugardalshöllinni í dag 74:68.  Með sigrinum tryggði Ísland sér farseðilinn á mótið en fyrir leik voru stærfræðingar á fullu að reikna en þeir útreikningar voru algerlega óþarfir þar sem að drengirnir kláruðu þessa undankeppni með stæl og uppskáru eftir því. 

 

Umfjöllun um helsti þætti leiksins: 

 

Þáttaskil: 

Enn og aftur er það þriðji leikhluti þar sem okkar menn springa út. Líkt og traust en örugg dísel vél sem tekur smá tíma að hitna fóru drengirnir í gang og sundur spiluðu varnarmúr Belga hvað eftir annað. Leiddir áfram af Martin Hermannssyni sem notabene er nýskriðinn í 22 ár gott fólk.  Ólíkt því gegn Kýpur hinsvegar á miðvikudag þurftu okkar menn að hafa sig alla við allt til loka leiks og  kom fyrirfram vitað áhlaup Belga á lokasekúndum leiksins en okkar menn stóðu þetta af sér með hörku og seiglu. Með orðum Sylvíu Nætur hér um árið segjum við Til hamingu Ísland!!  Fólk má nú fara að líta eftir farmiða annað hvort til Finnlands, Rúmeníu, Ísreal eða Tyrklands eitt er víst að Karfan.is verður þar!

 

Tölfræðin lýgur ekki: 

Belgía tapar 20 boltum í öllum leiknum gegn 11 hjá Íslandi. Þetta orsakast helst á frábærri vörn Íslands þar sem íslenska þjálfarateymið hafði lesið sóknaraðgerðir belga uppá 10. Útúr þessu skapar Ísland sér 23 stig. Auk þess nær Ísland 38 stigum undir körfunni gegn 18 hjá Belgíu. Belgía hittir þó betur heilt yfir taka 11 skotum færri en Ísland.

 

 

Hetjan: 

Við ætlum að næla þessa nafnbót á tvo leikmenn sem ólu mann sinn í vesturbænum.  Í mesta uppgangi liðsins í þriðja leikhluta fór afmælisbarnið frá því í gær Martin Hermannsson hamförum og lét Belgana á stundum líta út fyrir að vera byrjendur í sportinu. Ef hann var ekki að skora þá mataði hann sína menn með huggulegum stoðum. Á lokakaflanum var það svo Jón Arnór Stefánsson sem tók við keflinu, sárþjáður á hné þá hefur leikmaðurinn fengið einhvern aukakraft til að klára leikinn.  Annars má alls ekki gleyma nánast loftþéttum liðsvarnarleik liðsins megnið af seinni hálfleik og sagan segir að liðið sé nú í sturtunni enn að dekka Belgana!

 

Kjarninn: 

Ísland er komið á Eurobasket 2017, það er ekkert flóknara. Íslenska liðið fór löngu leiðina að þessu verkefni, slæmt tap í Sviss dró aðeins úr vonunum en þetta er bara svo geggjað lið. Sigur á Belgíu er einn af stærstu sigrunum í íslenskri körfuboltasögu þar sem um er að ræða virkilega sterka körfuboltaþjóð. Íslenska liðið setti saman frábæran seinni hálfleik þar sem vörnin var hreyfanleg og Belgía fékk ekkert gefins. Í sókninni voru menn beittir og hikuðu ekki við að ráðast að körfunni og finna nýjar leiðir.
 

 

 

Tölfræði leiksins