Craig Pedersen þjálfari Íslands sagði eftir leik að margt hefði vantað uppá hjá íslenska liðinu í tapinu gegn Belgíu fyrr í kvöld. Þetta sagði hann á blaðamannafundi í Lotto höllinni eftir leik kvöldsins.

 

„Við gerðum marga jákvæða hluti. Til þess að halda leiknum jöfnum hefðum við þurft að nýta þau tækifæri sem við bjuggum okkur til.“ sagði Craig.

 

„Það eru sem dæmi of mörg hraðaupphlaup sem við nýtum ekki okkur í hag.  Það hefði verið gott að gera það og hitta betur til að halda leiknum jöfnum.“

 

Ísland var með um 18% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld og telur Craig það ekki bara skrifast á vondan dag.

 

„Við skutum ekki vel en að einhverju leyti er það vegna þess að Belgía gaf okkur ekki mörg opin skot. Vörn þeirra var sterk og þeir eru miklir íþróttamenn. Við áttum í vandræðum með þá í dag.“