U18 landsliðið í körfubolta hefur síðustu daga verið í Makedóníu þar sem liðið leikur á evrópumóti landsliða í borginni Skopje.

 

Eins og fram kom í fréttum í gær var gríðarlegt úrhelli í Skopje í gær. Svo mikið að flóð mynduðust um borgina og hafa hið minnsta 15 látist í þessum hörmulegu náttúruhamförum.

 

Einar Árni Jóhansson þjálfari U18 landsliðsins segir frá því á facebook síðu sinni að landsliðið hafi verið að spila leik í borginni þegar rigningin og flóðið skall á.

 

„Fengum að vita það í hálfleik að ástandið utan dyra væri ekki gott og maður varð var við það meðal annars vegna þess að íþróttahúsið lak hressilega og ljósin blikkuðu nokkrum sinnum enda úrhelli og þrumur og eldingar.“ segir Einar á síðunni.

 

Þurfti liðið að bíða góðan tíma í íþróttahúsinu uns veðrið var að mestu yfirstaðið en segir Einar þó að það hafi verið skrautlegt að ferðast heim:

 

„Ástandið hafði skánað töluvert þegar leik lauk en það var ævintýri að keyra heim þegar göturnar voru eins og ár á köflum og við höfum aldrei séð annað eins of þrumum og eldingum. Komumst þó heilir heim á hótel en sáum t.a.m. bíla sem voru hálfir í kafi í götunni hérna fyrir neðan hótel.“

 

U18 liðið hefur lokið keppni í 13 sæti eftir sigur á Portúgal í  dag en eins og sést á þessum lýsingum hefur liðið lent í ýmsu og verður þessi ferð væntanlega eftirminnileg fyrir vikið.