Íslenska U18 ára landsliðið hafði í dag góðan 77-66 sigur gegn Hollandi í B-deild Evrópukeppninnar. Sigurinn kom íslenska liðinu ekki að kostnaðarlausu þar sem Adam Eiður Ásgeirsson handarbrotnaði eftir aðeins sjö mínútna leik.

Leikjum dagsins er ekki lokið í riðlakeppninni en allt bendir til þess að íslenska liðið muni leika um 9-16 sæti þar sem liðið er jafnt Danmörku og Eistlandi þar sem Eistar standa best að vígi þessara þriggja liða.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var stigahæstur í íslenska liðinu í dag með 26 stig, 8 fráköst og 4 stolna bolta en næstur honum var Eyjólfur Ásberg Halldórsson með 15 stig og 7 fráköst.

Einar Árni Jóhannsson þjálfari liðsins sagði við Karfan.is eftir leik: „Sterk innkoma hjá Árna Elmari og Magnúsi Breka skiptu sköpum í dag, þeir skila 17 stigum af bekknum og þar af var Magnús með þrjá þrista sem í raun klára leikinn. Þeir voru x-factorar liðsins í dag en Þórir Guðmundur og Snjólfur voru frábærir.“

Nánari tíðindi af endanlegum örlögum íslenska liðsins fást í kvöld þegar riðlakeppninni lýkur en leikið er í Skopje.