Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur gengið frá nýjum samningi við Finn Jónsson, þjálfara meistaraflokks karla, til næstu þriggja ára. Mun Finnur þjálfa Skallagrímsmenn til loka keppnistímabilsins 2018-2019.
Honum til aðstoðar verður Atli Aðalsteinsson en hann undirritaði samning þess efnis á dögunum og verður hann aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og leikmaður liðsins.

Báðir eru þeir Borgfirðingar í húð og hár og hafa leikið með Skallagrím í fjölda ára ásamt því að þjálfa yngri flokka félagsins. 

Finnur hefur þjálfað meistaraflokk karla frá ársbyrjun 2015. Hann stýrði liðinu upp úr 1. deild og í Dominos deildina í fyrra þegar það lagði Val og Fjölni með glæsibrag í úrslitakeppni 1. deildar. Áður hefur Finnur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Skallagrími og KR og verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Þá hefur hann komið að þjálfun yngri landsliða Íslands og verið yfirþjálfari yngri flokka Skallagríms.

Atli hefur þjálfað yngri flokka félagsins ásamt því að hafa leikið með liðinu. Hann spilaði stórt hlutverk s.l vetur þegar liðið vann sér sæti í deild þeirra bestu á nýjan leik. Atli meiddist illa á öxl undir lok tímabils og er nú sem stendur í endurhæfingu og mun hann vonandi hefja leik á nýju ári.

Hafþór Ingi Gunnarsson sem var spilandi aðstoðarþjálfari Skallagríms á síðustu leiktíð ákvað að taka sér frí frá sínum störfum fyrir félagið. Vill körfuknattleiksdeild Skallagríms þakka Hafþóri kærlega fyrir frábær störf og vonast deildin eftir því að fá að njóta krafta hans í framtíðinni.