Nýliðar Skallagríms í Domino´s-deild kvenna hafa ráðið Tavelyn Tillman fyrir átök vetrarins en Tillman er fyrrum bandarískur landsliðsmaður og leikmaður WNBA deildarinnar!

Í tilkynningu frá kvennaliði Skallagríms segir:

Kvennalið Skallagríms gekk í sumar frá samningi við Tavelyn Tillman. Ráðning Tillmann var síðasti hlekkurinn í lið Skallagríms fyrir komandi tímabil. Æfingar liðsins hófust strax eftir verslunarmannahelgi og í næstu viku er Skallagrímur á leið í æfingarferð til Spánar þar sem m.a. verður leikið gegn spænskum liðum.

Stigahæsti leikmaður í Svíþjóð í fyrra
Tavelyn spilar stöður 1,2,3 og er bæði mjög öflug og reynslumikil. Tavelyn lék á síðasta ári með Norkjöping í Svíþjóð og var stigahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar með 22,1 stig að jafnaði í leik og m.a. með 40% nýtingu úr 3 stiga skotum. Tavelyn útskrifaðist úr háskóla árið 2011 og byrjaði þá að spila á undirbúningstímabili með Minnisota Lynx í WNBA. Hún ákvað hinsvegar að flytja sig um set og fór í atvinnumennsku í Evrópu þar sem hún hefur auk Svíþjóðar spilað bæði efstu deildum í Sviss og Slóveníu. Hún hefur í öllum þremur löndunum verið í lykilhlutverki og hefur m.a. orðið bæði bæði deildar- og bikarmeistari. Í Slóveníu lék hún einnig með liði sínu í Evrópukeppnum með góðum árangri. Hún hefur allt frá háskólaárum ýmist verið stigahæst eða verið valin í úrvalslið í þeim löndum sem hún hefur spilað í. Hún á einnig að baki nokkra landsleiki með Bandaríska landsliðinu en hún var valin í landsliðshóp árið 2011.

Tavelyn segist aðspurð vera mjög spennt að spila með Skallagrím og Ísland sé land sem henni hafi alltaf langað að spila í. Skallagrímur býður Tavelyn velkomna í Borgarnes.

Mynd/ Tillman var á mála hjá Norrköping í Svíþjóð á síðustu leiktíð.