Jón Arnór Stefánsson hefur samið við körfuknattleiksdeild KR um að spila með liðinu næstu árin. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi hjá KR rétt í þessu.

 

Samningurinn er til tveggja ára og því ljóst að Jón Arnór er kominn heim úr atvinnumennskunni til framtíðar líkt og hann hafði staðfest við Karfan.is í gær.

 

Hann kemur frá Valencia á Spáni en hann hefur sagt að með þessu sé hann að ljúka tíðindamiklum atvinnumannaferli.

 

 

Jón Arnór er alinn upp hjá KR og spilaði þar til ársins 2002 er hann hafði verið valinn efnilegasti og besti leikmaðurinn í íslensku úrvalsdeildinni. Árið 2002 samdi Jón við Trier í Þýskalandi þar sem hann lék í ár.

 

Eins og flestir vita reyndi Jón Arnór fyrir sér hjá NBA liði Dallas Mavericks árið 2003 og varð annar leikmaðurinn til að vera á samningi hjá NBA liði á eftir Pétri Guðmundssyni.

 

Jón Arnór spilaði aldrei NBA leik með Dallas áður en hann fór til Rússlands þar sem hann varð fyrsti íslendingurinn til að verða evrópumeistari í körfubolta.

 

Síðan hefur Jón Arnór spilað með sterkustu liðum í Evrópu utan ársins 2009 er hann samdi einnig við KR til árs og varð íslandsmeistari með liðinu. Auk þess var hann lykilmaður í íslenska landsliðinu sem komst á Eurobasket á síðasta ári í fyrsta skipti í sögunni.

 

„Þetta tekur allt einhverntíman enda,“ sagði Jón og átti þá við dvölina erlendis í atvinnumennsku. „Ég var alltaf á því að eitthvað mjög spennandi þyrfti að koma til að ég færi út aftur en það er líka ákveðinn léttir að vera búinn að taka þess a ákvörðun svo ég er bara sáttur. Það er gaman að koma heim,“ sagði Jón við Karfan.is í gær.

 

Talið var að Stjarnan og Grindavík hafi líka borið víur í Jón Arnór en nú er ljóst að KR hefur orðið fyrir valinu hjá þessum frábæra leikmanni.

 

Áður hafði KR samið við Sigurð Þorvaldsson sem kemur frá Snæfell en félagið hafði einnig misst þá Helga Már Magnússon, Björn Kristjánsson og Michael Craion.

 

Ljóst er að þetta er gríðarlegur hvalreki fyrir KR og íslenskan körfubolta.