Jakob Örn Sigurðarson tilkynnti í gær að hann hefði lagt landsliðsskóna á hilluna frægu og því var loka leikur hans með liðinu ansi veglegur sem svo má segja. "Síðasti leikur minn náttúrulega þessi leikur gegn Tyrkjum sem var vægast sagt skemmtilegur leikur og að klára landsliðsferilinn á þessum nótum með þessum strákum sem ég hef verið með í landsliðinu svona lengi var alger draumur. Allt í kringum þetta mót var náttúrulega draumur og algerlega ógleymanleg upplifun. Ég er þakklátur að fá að klára ferilinn á þennan hátt. " sagði Jakob í samtali við Karfan.is 

 

Við heyrðum í Kobba, líkt og hann er jafnan kallaður og í stuttu máli gerðum við upp landsliðsferil hans. Hvað stóð uppúr, herbergisfélagarnir og einhverjar krassandi sögur úr ferðunum sem voru í einhverjum tugum talið.  "Þetta hófst í Keflavík á norðurlandamóti að mig minnir, ég man allavega að ég var rosalega stressaður og spilaði lítið. En kom inná í fyrsta skiptið og tapaði boltanum strax. Fyrstu leikirnir voru já á þessu móti og þarna í liðinu voru menn eins og Hermann Hauksson, Jón Arnar Ingvarsson, Herbert Arnarsson og Falur Harðarson sem voru þá að hætta þessu og menn eins og Fannar Ólafsson, Helgi Jónas, Friðrik Stefánsson voru að taka við keflinu. Og ungu pungarnir í því liði voru þá ég, Logi og Jón Arnór ef ég man þetta allt rétt." sagði Jakob um sína fyrstu leiki í landsliðinu. 

 

"Á þessu móti var svo einnig "Elítu liðið" sem skipað var leikmönnum sem komust ekki í 12 manna A landsliðið. Við spiluðum gegn þeim og töpuðum.  Við erum svo reglulega minntir á það af Elítu mönnum að þeir hafi sigrað okkur í þessum leik."

 

Á svo löngum ferli er í raun auðvelt að fá uppúr Jakob hvað stóð uppúr.  " Eftir svona langan tíma með landsliðinu og alltaf að reyna að komast lengra og á svona stórmót, fá svo að upplifa það verður seint toppað.  Ferillinn búin að vera langur og skemmtilegur, ég held að það sé þannig með flesta og það kannski kemur á óvart en það eru helst til eru það ferðirnar, keppnisferðir og æfingaferðir sem maður man vel eftir. Auðvitað eru líka einstaka leikir sem maður man vel eftir.  En ótrúlega margir skemmtilegir tímar með strákunum á hóteli að gera nánast ekki neitt en samt að gera jú eitthvað. Skemmtilegir tímar þegar maður rifjar þetta upp. Af einstaka ferðum þá var Kínaferðin nokkuð eftirminnileg þar sem við öttum kappi við Yao Ming og félaga. " 

"Logi Gunnarsson var að öllu jöfnu minn fyrsti herbergisfélagi í landsliðinu og við vorum lengi saman í herbergi en svo þegar Hlynur kom til Sundsvall þá vorum við alltaf herbergisfélagar í okkar ferðum þar og það færðist svo yfir á landsliðið.  Tveir miklir meistarar og góður vinskapur hefur myndast með okkur í þessum ferðum öllum og ég tel mig lukkulegan með þessa drengi í þessum ferðum." 

 

En hvað sér Jakob fyrir sér nú þegar hann hefur kvatt liðið? Hver er framtíð liðsins?

 

"Framtíð liðsins er vægast sagt mjög björt finnst mér. Ein af þeim ástæðum sem auðveldaði ákvörðun mína er sú að það eru sterkir leikmenn í minni stöðu að koma upp og manni finnst eiga skilið að fá fleiri tækifæri, hlutverk og fleiri mínútur með liðinu. Þetta eins og ég segi auðveldaði mér að stíga til hliðar á þessum tímapunkti og leyfa þeim að sýna sig og sanna. Svo eru líka að koma sterkir leikmenn upp í öllum stöðum en það hefur svo lítið loðað við okkur að við framleiðum bara bakverði.  Nú eru stórir strákar að koma inn og fleiri svona alhliða leikmenn þannig að þessi blanda á eftir að gera gott lið enn betra tel ég." 

 

Við spurðum Jakob um einhverja góða sögu úr landsliðsferðum og hann sagði þær vera þó nokkuð margar góðar.  Jakob sagði okkur eina ansi skemmtilega sem við birtum vonandi seinna í dag.  Við þökkum Kobba fyrir viðtali og óskum honum velfarnaðar á komandi tímabili með liði sínu Borás í Svíþjóð.