Það er svo sem ekkert leyndarmál að Haukur Helgi Pálsson hafði verið einn af þeim leikmönnum sem Grindvíkingum (ásamt fjölda annara liða á landinu) vildu fá í sínar raðir.   Haukur líkt og flestir vita ákvað að halda áfram í Njarðvíkinni þangað til hann fékk gott tilboð að utan og mun hann leika í Frakklandi næstu leiktíð.  Haukur hinsvegar fékk smjörþefinn af því að vera í Grindvíkurbúningnum í gærkvöldi og greiddi fyrir það heilar 15 þúsund krónur að auki. 

 

Þannig var að á styrktarkvöldi fyrir Pétur Pétursson í TM-Höllinni var uppboð á búningum og hafði Ólafur Ólafsson leikmaður Grindvíkinga gefið treyju sína til styrktar málefnisins.  Þannig fór að Haukur Helgi átti hæsta boðið í treyjuna og fékk hana svo að lokum.   Haukur mátaði treyjuna að sjálfsögðu en því næst gekk hann til Péturs og gaf honum þessa líka fínu árituðu treyju frá Ólafi.