Hinn ungi og efnilegi Eyjólfur Ásberg Halldórsson mun spila með úrvalsdeildarliði Skallagríms á næsta tímabili. Eyjólfur kemur frá ÍR en þar spilaði hann á síðasta tímabili eftir að hafa komið frá KR þar sem hann er uppalinn.

 

Nýliðar Skallagríms eru því í óðaönn að styrka hóp sinn en þeir Magnús Þór Gunnarsson og Darrell Flake hafa einnig gengið til liðs við nýliðana. ÍR hafði hinsvegar einnig misst Björgvin Hafþór Ríkharðsson úr sínum leikmannahóp og því nokkrar breytingar yfirvofandi í leikmannahóp Breiðhyltinga.

 

Yfirlýsing frá Skallagrím í heild sinni:

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Eyjólf Ásberg Halldórsson fyrir komandi tímabil í Úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Domino´s deildinni.

Eyjólfur er fæddur árið 1998 og er uppalinn í KR en kemur í Skallagrím frá ÍR þar sem hann lék á s.l tímabili. Eyjólfur hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var lykilleikmaður U18 ára liðs Íslands á Evrópumótinu nú í sumar. Nú í vor varð Eyjólfur Íslandsmeistari með ÍR í drengjaflokki þar sem hann var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins með 24 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar.

Eyjólfur er rúmlega 190cm hár mjög fjölhæfur leikmaður sem getur leist nánast allar stöður á vellinum. Hann smell passar inní þann leikstíl sem Finnur Jónsson þjálfari hyggst láta liðið leika á komandi tímabili og er því frábær viðbót í liðið enda gríðarlega efnilegur og fjölhæfur leikmaður.
Eyjólfur mun flytja í Borgarnes og stunda nám við Menntaskóla Borgarfjarðar á komandi vetri.
Með þessari ráðningu er lið Skallagríms full mannað fyrir átökin í vetur og því ekkert annað en að láta sig hlakka til.

Við bjóðum Eyjólf Ásberg Halldórsson hjartanlega velkomin í Borgarnes og væntum mikils af þessum gríðarlega efnilega leikmanni."

 

Einnig tilkynnti félagið í gær að Davíð Guðmundsson hefði skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið en hann hefur spilað með Skallagrím allan sinn feril fyrir utan fyrri part síðasta tímabils. Davíð er gríðargóð skytta og er mikilvægur fyrir lið borgnesinga.