Carmelo Anthony spilar nú á sínum fjórðu Ólympíuleikum fyrir hönd Bandaríkjana og gæti orðið einn sigursælasti leikmaður í sögu landsliðsins er hann reynir við sitt þriðja ólympíugull.

 

Líklegt þykir að er leikunum lýkur verði hann stigahæsti leikmaður í Ólympíusögu Bandaríska landsliðsins. Í gær varð hann þriðji stigahæsti leikmaðurinn í sögu liðsins er hann tók fram úr hinum eina sanna Micheal Jordan.

 

Anthony hefur nú sett 262 stig á Ólympíuleikum en Jordan var með 256 stig. Tekið skal fram að öll stig Jordans koma á tvem Ólympíuleikum en það tekur ekkert af áfanga Carmelo Anthony.

 

Þessi leikmaður New York Knicks er einungis 12 stigum frá því að verða stigahæsti leikmaður í sögu Bandaríska landsliðsins á Ólympíuleikum. Efstur á listanum er LeBron James með 273 stig en David Robinson er annar með 270 stig.

 

Anthony er nú þegar einn af stigahæstu leikmönnum Bandaríska liðsins á þessum leikum með 11,5 stig í leik. Líklegt verður því að teljast að leikmaðurinn bæti metið í næsta leik gegn Áströlum á morgun (miðvikudag).

 

Ef ekki þá má telja það öruggt að metið verði hans í síðasta leik Bandaríkjanna í riðlakeppni leikanna gegn Serbíu á föstudag.