Leikmaður Phoenix Mercury og bandaríska landsliðsins, Brittney Griner sagðist nýlega við blaðamann USA Today vilja spila einn á einn við leikmann Sacramento Kings og bandaríska landsliðsins, DeMarcus "Boogie" Cousins. "Ég myndi vilja kíkja á völlinn og spila gegn honum. Það er mikið ruslatal á milli okkar. Það er gaman að tala við hann. Hann er fyndinn." Sagði Griner við blaðamanninn.

 

Aðspurður um málið sagðist Boogie vera tilbúinn í þetta einvígi, en hann ku hafa reitt Griner til þessarar reiði með því að segja hana þriðja besta stóra leikmann Ólympíuleikanna í Ríó á eftir honum og DeAndre Jordan. Enn frekar segir hann hana samt sem áður frábæran leikmann, sem búi yfir frábærri fótavinnu, þó hún snúist honum kannski ekki snúninginn.

 

Líklegt verður að þykja að þetta einvígi verði að bíða betri tíma, en bæði eru þau á fullu þessa stundina með liðum Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum. Hvorugt liðið hefur enn tapað leik, en ólíklegt verður að teljast að svo verði.