Undir 16 ára lið Íslands sigraði lið Georgíu fyrr í kvöld á Evrópumótinu í Búlgaríu. Leikurinn var sá fyrsti sem að liðið lék á mótinu, en ásamt Georgíu eru þeir með Belgíu, Tékklandi, Slóvakíu og heimamönnum í riðli.

 

Lið Georgíu fór betur af stað í leiknum. Voru komnir með 8 stiga forystu eftir aðeins nokkurra mínútna leik. Ísland náði þá að jafna hlut sinn aðeins fyrir lok leikhlutans, sem endaði 18-21. Í öðrum leikhlutanum tóku þeir svo öll völd á vellinum og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik voru þeir komnir með forystuna, 40-30.

 

Í seinni hálfleiknum var leikurinn svo spennandi, þó svo að Ísland næði að mestu að halda sér nokkrum stigum yfir. Fyrir lokaleikhlutann voru þeir með 12 stiga forystu, 63-51. Í lokaleikhlutanum saxaði Georgía jafnt og þétt forystu Íslands svo niður. Komust 1 stigi frá Íslandi í tvígang undir lokin. Þegar um tvær og hálf mínúta voru eftir og svo aftur þegar að ein mínúta og tuttugu sekúndur voru eftir. Lengra komust þeir þó ekki og fór svo að lokum að Ísland sigraði leikinn með 7 stigum, 79-72.

 

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Sigvaldi Eggertsson, en hann skoraði 29 stig, tók 11 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 2 boltum.

 

Næst leikur Ísland á móti liði Slóvakíu á morgun.

 

Tölfræði leiks

Hérna er meira um mótið