Undir 18 ára lið drengja Íslands sigraði Noreg í öðrum leik Norðulandamótsins með 59 stigum gegn 44. Liðið hefur því unnið báða leiki sína á mótinu, en á morgun mæta þeir Svíþjóð.

 

Byrjun leiksins einkenndist af sterkum varnarleik, þar sem að bæði lið áttu erfitt með að skora. Ísland var þó að fá heilan helling af fínum skotum, þau voru bara ekki að detta niður. Fyrstu 8 skot þeirra fyrir utan geiguðu. Noregur náði þó að brjóta ísinn þegar um 3 mínútur voru liðnar af leiknum og svo Ísland um mínútu seinna. Leikhlutinn var jafn þangað til að Ísland fór að skipta bekk sínum inná, en hann kom svo Íslandi í nauma 14-9 forystu fyrir lok hans.

 

Norðmenn fóru betur af stað í öðrum leikhlutanum. Voru búnir að jafna leikinn, 14-14, þegar aðeins um mínúta var liðin af honum. Við tók svo annar góður kafli Íslands þar sem þeir náðu mest 10 stiga forystu, 26-16. Noregur náði þó aðeins að klóra í bakkann í lokin. Ísland fór með 5 stiga, 27-22, forystu til búningsherbergja í hálfleik.

 

Atkvæðamestur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Adam Eiður Ásgeirsson, en hann skoraði 8 stig og tók 1 frákast.

 

Seinni hálfleikinn hóf Noregur líkt og þeir gerðu í 2. leikhlutann. Með miklum krafti jöfnuðu þeir leikinn aftur, 29-29, á aðeins 2 fyrstu mínútum hlutans. Leikhlutinn var jafn og spennandi eftir það, þar sem að liðin skiptust á körfum. Fór svo að fyrir lokaleikhlutann var Ísland með 2 stiga forystu, 39-37.

 

Í lokaleikhlutanum var svo engin spurning með hver væri að fara með sigur af hólmi í þessum leik. Þórir Þorbjarnarson opnar hlutann á tveimur þristum. Eftir það létu þeir kné fylgja kviði og þó munurinn hafi verið aðeins 11 stig um miðjan leikhlutann, voru fá teikn á lofti um að Noregur ætti nokkurn möguleika. Að lokum sigraði Ísland leikinn með 15 stigum, 59-44.

 

Maður leiksins var leikmaður Íslands, Jón Arnór Sverrisson, en hann skoraði 6 stig, tók 6 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 8 boltum á þeim22 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði

 

Myndir

 

 

Viðtöl: