Undir 16 ára lið drengja tapaði fyrsta leik sínum á Norðurlandamóti þessa árs fyrir Dönum fyrr í kvöld með 51. stigi gegn 79. Næsti leikur liðsins er gegn Noregi á morgun.

 

 

Ísland byrjaði leikinn betur. Komu ferskari til leiks en Danir og komust snemma í nauma forystu, 7-3. Mögulega voru þessar fyrstu mínútur leiksins þær bestu sem að Ísland spilaði. Danir svöruðu þessari byrjun þó fljótlega með góðu 10-2 áhlaupi. Fyrsti leikhlutinn endaði með eins stigs forystu Danmerkur, 15-14.

 

Fyrstu fjórar mínútur annars leikhlutans byrja Danir svo á 8-0 áhlaupi. Á þessum kafla virtist hreinlega ekkert ganga upp sóknarlega fyrir Ísland, voru mikið að tapa boltanum. Ísland náði þó að halda fengnum hlut restina af hlutanum. Danir fóru með 7 stiga forskot til búningsherbergja í hálfleik.

 

Atkvæðamestu fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Hilmar Smári Henningsson með 8 stig, 4 fráköst og 1 stoðsendingu.

 

Í þriðjaleikhluta gerðu Danir svo út um leikinn. Þegar að hlutinn var hálfnaður var munurinn kominn í 13 stig, 47-34 og svo juku þeir forystuna jafnt og þétt í framhaldinu. Ísland tapaði 3. leikhlutanum 25-9. Mikið til vegna þess magns bolta sem að þeir voru að tapa í bland við einstaklega skilvirka sókn andstæðingsins, ekki mikið af skotum sem geiguðu hjá Dönum í hlutanum.

 

Í byrjun fjórða leikhluta reyndu Íslendingar svo hvað þeir gátu til þess að komast aftur inn í leikinn, en allt kom fyrir ekki. Um miðbygg hlutans voru Danir búnir að sigla sigrinum í höfn. Fór svo að leikurinn endaði 79-51 fyrir Danmörku.

 

Maður leiksins í liði Íslands var áðurnefndur Hilmar Smári Henningsson, en hann skoraði 10 stig, tók 9 fráköst, stal 3 boltum og gaf 1 stoðsendingu á þeim rúmu 28 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði

Myndir

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl: