Ísland sigraði Svíþjóð með 94 stigum gegn 66. Liðið er því komið með tvo sigurleiki og eitt tap undir beltið, en næsti leikur þeirra er gegn Eistlandi á morgun áður en að þeir svo klára mótið gegn Finnlandi á fimmtudaginn.

 

Leikurinn var jafn og spennandi fyrsta leikhlutann. Ísland virtist þó vera skrefinu á undan. Komust snemma í 13-7 áður en Svíþjóð tók á rás og náði að jafna leikinn. Aftur náði Ísland þó forystu og fóru með 5 stig, 25-20, út úr leikhlutanum.

 

Í byrjun annars leikhlutans var eins og íslenska liðið ætti í erfiðleikum með að slíta sig almennilega frá þeim sænsku. Góð pressa andstæðinganna gerði það að verkum að þeir náðu að halda leiknum spennandi, þó þeir næðu aldrei alveg að jafna hann. Um miðjan leikhlutann var Ísland með 1. stigs forystu, 32-31. Lokakafli annars leikhlutans var svo líklega besti kafli liðsins á mótinu til þessa. Ísland tók 20-2 áhlaup á Svíþjóð og enduðu hálfleikinn því með 19 stiga forystu, 52-33.

 

Atkvæðamestur í fyrri hálfleik var Arnór Sveinsson, en hann skoraði 19 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.

 

Seinni hálfleikinn hóf lið Íslands svo á svipuðum nótum og þeir höfðu endað þann fyrri. Voru fljótt komnir í 28 stiga forystu. Þrátt fyrir mikinn mun á liðunum á þessum tímapunkti, voru liðin enn bæði að spila af fullum krafti. Svíþjóð að reyna að komast aftur inn í leikinn og Ísland einkar vakandi fyrir því að það mætti ekki gerast. Leikhlutinn endaði með 23 stiga forystu Íslands, 51-74.

 

Leikurinn var í raun að miklu leyti ráðinn fyrir lokaleikhlutann. Ísland hélt þó enn áfram og var mest komið með muninn í 30 stig. Fór svo að Ísland fór loks með sigur af hólmi, 94-66.

 

Maður leiksins var áðurnefndur Arnór Sveinsson, en hann skoraði 38 stig, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á þeim 30 mínútum sem hann spilaði

 

Tölfræði

 

Myndir

 

Viðtöl: