Undir 18 ára lið Íslands tapaði fyrir Eistlandi með 43 stigum gegn 55. Liðið er því með 2 sigra og tvö töp, en síðasti leikur liðsins er gegn Finnlandi á morgun.

 

Bæði lið fóru hratt af stað í leiknum. Ísland var með 3 stiga forystu, 9-6, eftir aðeins tveggja mínútna leik. Eistar náðu þó að koma í veg fyrir að forysta Íslands yrði meiri og um miðjan fyrsta hluta voru þær svo í fyrsta skipti komnar yfir, 13-12. Ísland var að skjóta frekar illa (8/20) í fyrsta hlutanum á meðan að Eistland var duglegt að koma sér á vítalínuna. Liðin skildu jöfn, 18-18, eftir þennan fyrsta leikhluta.

 

Í öðrum leikhluta byrjuðu sóknarleg vandræði Íslands fyrir alvöru. Skoruðu ekki körfu fyrstu 4 mínútur hlutans. Það var ekki fyrr en Dagbjört Karlsdóttir skoraði 5 stig í röð (í sömu sókninni) sem að þær virtust vera að komast af stað. Um miðjan leikhlutann var leikurinn ennþá í járnum, 22-23. Ísland nær þá að komast nokkrum stigum á undan þeim, en missa þá forystu niður fyrir lok hálfleiksins. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Ísland stigi yfir, 30-29.

 

Atkvæðamest í fyrri hálfleik var Sylvía Rún Hálfdánardóttir með 12 stig, 2 fráköst og 2 stolna bolta.

 

Eistland var betra í þriðja leikhlutanum. Ná að byggja, hægt og bítandi, upp 9 stiga mun fyrir lokaleikhlutann, 37-46.

 

Í byrjun lokaleikhlutans verður Ísland svo fyrir áfalli þegar að Sylvía fær dæmda á sig sína 4. villu og í kjölfarið tæknivillu (sína 5. villu). Fram að þessum tímapunkti hafði hún verið besti maður vallarins og var allt atvikið í kringum útilokun hennar frá leiknum í meira lagi skrýtið. Þar sem að í raun virtist hún aðeins vera skúffuð yfir því að hafa fengið dæmda á sig sína 4. villu, en ekki vera neitt sérstaklega að beina því svekkelsi að dómurum leiksins þegar hún fékk tæknivilluna dæmda á sig.

 

Ísland náðiað halda í við Eistland þennan lokaleikhluta, en náði nákvæmlega ekkert að vinna muninn niður. Skot þeirra (líkt og lunga leiksins) voru ekki að rata ofaní. Fór svo að lokum að Eistland fór með sigur af hólmi 55-43.

 

Maður leiksins var tíðrædd Sylvía Rún Hálfdánardóttir, en hún skoraði 14 stig, tók 8 fráköst og stal 2 boltum á þeim 25 mínútum sem hún spilaði.

 

 

 

Tölfræði

 

 

Myndir

 

Viðtöl: