Hafir þú rambað inn í íþróttahús Keflavíkur í gærkvöld án þess að vita hvað var í gangi eru allar líkur á að þú hefðir rekið upp stór augu. Þar var, að er virtist, glænýtt lið Keflavíkur að spila undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar. Í því liði voru meðal annarra A-landsliðskonurnar Auður Íris Ólafsdóttir (úr Haukum), Sigrún Sjöfn Ámundadóttir (úr Grindavík) og Jóhanna Björk Sveinsdóttir (úr Haukum) allar klæddar Keflavíkurbúningnum.

 

Það er þó ekki svo að þær hafi ákveðið að fara með hæfileika sína til Keflavíkur fyrir næsta tímabil. Þær voru í raun hluti af hálfgerðu pressuliði sem að þjálfarinn, Sverrir Þór, setti saman til þess að spila æfingaleik við undir 18 ára lið Íslands, en það lið er innan fárra vikna á leiðinni á norðurlandamót yngri landsliða í Finnlandi með Inga Þór Steinþórssyni og Bylgju Sverrisdóttur.

 

Af æfingaleiknum sjálfum var svosem kannski ekki mikið að frétta, því þetta var jú æfingaleikur. Undir 18 ára liðið vann pressulið Sverris Þórs nokkuð auðveldlega 75-41 í venjulegum leiktíma. Þrátt fyrir augljóst tap var svo samt ákveðið að bæta við framlengingu (5 mínútum) Þar vann pressuliðið 4-5.

 

 

Mynd / Bára Dröfn Kristinsdóttir