Hópur yngri flokka iðkenda hjá KR undir leiðsögn þjáfarans Bojan Desnica er nú á leið í Red Star körfuboltabúðirnar í Zlatibor. Þetta er í 8. skiptið sem farið er í búðirnar en þær eru ætlaðar krökkum á aldrinu 9 – 18 ára. Búðirnar eru haldnar í samvinnu við Koledz skólann í Belgrad. Á dögunum lenti U18 ára lið drengja  í 2. sæti í meistardeild félagsliða Evrópu og fyrrum nemandi skólans, Nemanja Bjelica, mætti liði Íslands á Eurobasket síðasta sumar.

 

Krakkarnir hafa verið duglegir að æfa eftir að tímabilinu lauk hérna heima en boðið var upp á æfingar hjá KR fjórum sinnum í viku í sumar. Landslagið í körfuboltanum í Serbíu er töluvert frábrugðið því sem krakkarnir fá að kynnast hérna heima og getur undirrituð vottað fyrir það af eigin reynslu af Serbneskum körfuboltabúðum. Nálgunin á þjálfun getur verið ákafari en á Íslandi en krakkarnir ættu að ráða vel við það og koma reynslunni ríkari heim.