Rétt í þessu var tilkynnt að kvennalið KR hefur ráðið nýjan þjálfara. Þar er á ferðinni hin 24. ára Heiðrún Kristmundsdóttir sem tekur við liðinu af Darra Frey Atlasyni sem tók við liðinu eftir að það dróg sig úr leik í úrvalsdeild fyrir ári.

 

KR endaði í öðru sæti 1. deildar í fyrra og tapaði í umspili um sæti í úrvalsdeild gegn Skallagrím. Liðið er í grunninn skipað ungum og efnilegum KRingum sem stóðu sig frábærlega í deildinni í fyrra.

 

Á sama tíma var gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara sem verður Halldór Karl Þórsson. Penninn var á lofti því  einnig skrifuðu  sex leikmenn undir samning hjá félaginu.

 

 

Tilkynning KR í heild:

„Körfuknattleiksdeild KR gekk í gær frá ráðningu Heiðrúnar Kristmundsdóttur sem nýjum þjálfara meistaraflokks kvenna. Heiðrún sem er 24 ára gömul lék fyrst körfubolta með Ungmennafélagi Hrunamanna á Flúðum en gekk svo í raðir KR og varð bikarmeistari með liðinu árið 2009, Íslandsmeistari 2010 og Íslands og bikarmeistari með unglingaflokki kvenna 2010. Heiðrún hélt sama ár til Bandaríkjanna þar sem hún fór í menntaskóla og þaðan í Coker háskóla í Suður Karolínuríki þar sem hún spilaði körfubolta með námi í 4 ár. Heiðrún lauk BA gráðu í sálfræði og upplýsingatækni frá Coker háskóla vorið 2015 og lék með Hamri í Dominosdeild kvenna síðasta vetur. Það er KR-ingum mikill fengur að fá Heiðrúnu en liðið átti góðu gengi að fagna í 1. deild á síðasta ári og lenti í 2. sæti í deildinni. Heiðrún sagðist vera ánægð með að vera komin í raðir KR á ný að hún hafi fylgst með góðri stemningu í liðinu síðastliðinn vetur og hlakkar til að taka þátt í henni.  Heiðrúnu til aðstoðar verður Halldór Karl Þórsson.  Á sama tíma endurnýjuðu sex leikmenn meistaraflokks samninga sína.“

 

„Myndin var tekin við undirritun samningsins. Frá vinstri við borðið eru Halldór Karl Þórsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna, Heiðrún Kristmundsdóttir og Guðrún Kristmundsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar KR. Fyrir aftan þær standa þeir leikmenn sem endurnýjuðu samninga sína fyrir næsta vetur; Perla Jóhannsdóttir, Gunnhildur Bára Atladóttir, Kristjana Pálsdóttir, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir og Rannveig Ólafsdóttir.“