Meistarar Golden State Warriors lönduðu í nótt oddaleik gegn Oklahoma City Thunder í úrslitum vesturstrandar í NBA deildinni. Lokatölur voru 101-108 Golden State í vil á heimavelli Oklahoma, Chesapeake Energy Arena, þar sem Klay Thompson stóð í ljósum logum og raðaði niður 11 þristum sem er nýtt NBA met í úrslitakeppninni!

Staðan í einvíginu er því 3-3 eftir að Golden State hafði lent 3-1 undir og allt útlit fyrir sumarfrí hjá meisturunum sem hafa heldur betur snúið vörn í sókn því oddaleikurinn fer fram á þeirra heimavelli. 

 

Thompson var með 41 stig í nótt og 11 þrista í 18 tilraunum sem er ekkert annað en lygilegt og Stephen Curry átti eina stoðsendingu eftir í þrennuna með 29 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Kevin Durant gerði 29 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar hjá Oklahoma og Russell Westbrook hjó jafn nærri þrennunni og Curry með 28 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst. 

Það eru svo Cleveland Cavaliers sem bíða austanmegin eftir Oklahoma eða Golden State í úrslitum NBA deildarinnar en Cleveland kláraði Toronto Raptors 4-2 í úrslitum Austurstrandarinnar. 

Þá segja þeir vestanhafs að oddaleikur Golden State og Oklahoma á aðfararnótt þriðjudags verði fyrsti oddaleikur/Game7 á heimavelli Golden State í 40 ár.