Haukar sóttu Tindastól heim í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Dominos deildar karla í körfubolta í kvöld.  Haukarnir höfðu unnið fyrsta leik liðanna í Hafnarfirði og sýndu í byrjun leiks að þeir voru komnir til sækja hart að sigri í Síkinu í kvöld.  Á meðan heimamenn virkuðu stressaðir þá sýndu Haukarnir yfirvegun og léku gríðarsterka vörn og eftir 3 og hálfa mínútu voru þeir komnir í 8-0 og útlitið ekki gott hjá heimamönnum. 

Costa þjálfari Stólanna byrjaði með lágvaxið lið og Gurley inná og það var bara alls ekki að virka og sóknarleikur heimamanna var í molum.  Finnur kom Haukum í 2-11 áður en Dempsey kom inná og eftir það jafnaðist leikurinn aðeins en Haukarnir leiddu þó 13-18 eftir fyrsta fjórðung.  Haukar voru ekki að hitta vel fyrir utan og það bjargaði þónokkru fyrir heimamenn sem greinilega höfðu lagt upp með að stöðva þriggja stiga skyttur Haukanna.

Munurinn hélst þetta 5-7 stig á milli liðanna lengst af öðrum fjórðung og slæm hittni liðanna hélt áfram.  Þegar tæpar þrjár mínútur voru til hálfleiks hafði Kári Jóns komið Haukunum í 22-31 en þá sögðu heimamenn hingað og ekki lengra og með þristum frá Ingva og Viðari auk frábærs varnarleiks náðu þeir 13-2 áhlaupi og höfðu forystu í leikhléi 35-33.  Allt brjálað í Síkinu!

Í þriðja leikhluta hélt barningurinn áfram en heimamenn voru þó lengst af skrefinu á undan.  Það var þó algerlega ljóst að Haukarnir ætluðu ekki að missa þá frá sér og Mobley og Finnur voru heimamönnum erfiðir undir körfunni.  Emil Barja kom svo Haukum yfir með þrist þegar tæp mínúta var eftir af fjórðungnum 53-55.

Lokafjórðungurinn var æsispennandi eins og leikurinn allur.  Baráttan var í algleymingi hjá báðum liðum og ekki gefin tomma eftir.  Þegar staðan er 64-64 og innan við 2 mínútur eftir skora Finnur og Mobley auðveldar körfur og koma Haukum 4 stigum yfir og héldu þá margir heimamenn að þetta væri búið.  Lewis setur niður erfitt skot undir körfunni og minnkar muninn í 2 stig, einungis 50 sekúndur eftir.  Þá tekur Pétur Rúnar Birgisson til sinna ráða, stelur boltanum af Haukum í næstu sókn og fær tvö víti þegar hálf mínúta er eftir.  Pétur setur annað vítið niður og Haukarnir fá boltann.  Kári Jóns rennur undir körfunni og missir boltann þegar fjórtán sekúndur eru eftir, Stólarnir bruna fram og Pétur rennir sér gegnum Haukavörnina, pumpar framhjá Mobley og skorar 69-68!  Haukarnir fengu séns á að vinna leikinn, höfðu boltann þegar 8 sekúndur voru eftir en Finnur klikkaði á lokaskotinu og sigur heimamanna staðreynd.

Pétur Rúnar, Viðar og Ingvi voru öflugir hjá heimamönnum í kvöld, þeir stigu upp þegar á þurfti að halda og Dempsey bætti við með tröllatvennu 17 stig og 11 fráköst.  Hjá Haukunum voru Kári Finnur og Mobley öflugir en aðrir áttu erfitt.

Tölfræði leiksins

Mynd og umfjöllun/ Hjalti Árnason