Skagamenn tóku á móti Fjölnismönnum úr Grafarvogi í Býflugnabúinu að Vesturgötu í kvöld.  ÍA var fyrir leikinn búið að vinna 5 leiki í röð á meðan Fjölnir hafði unnið 3 af síðustu 5.  Skagamenn komu með sigur eftir að hafa mjólkað Skallagrímsmenn í Fjósinu í Borgarnesi með sér inn í þennan leik á meðan Fjölnismenn komu úr þægilegri göngu í garðinum frá viðureign sinni við Reynismenn í síðasta leik.

Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og orðið á götunni yfir þennan leik var stórleikur. Fjölnismenn, sem fluttu sig úr Dominos niður í 1. deildina síðastliðið vor, og kunna ekkert sérstaklega vel við sig í nýjum heimkynnum, voru fyrir leikinn í 2. sæti með 22 stig, 2 stigum á eftir toppliði Þórs en áttu leik inni.  Þór er þó með innbirðis viðureignina á Fjölni en Fjölnir vann fyrri leik liðanna 80-72 en Þór tók seinni leikinn 85-72, bæði lið með einn sigur en Þór með 5 fleiri skoruð stig.

 

ÍA var fyrir leikinn í 4. sæti deildarinnar með 18 stig, fyrir ofan Val á innbirðisviðureign liðana en Valsarar eru einnig með 18 stig, en  liðin eiga seinni leikinn eftir.  Milli ÍA og Fjölnis voru svo Skallagrímsmenn með 20 stig en  Hamar og Breiðablik koma svo í 6. og 7. sæti með 16 og 14 stig en of langt mál er að fara í gegnum allar innbirðis viðureignir þessara liða til að spá fyrir um hvaða 4 lið fara í úrslitakeppnina í vor.

 

Þá að máli málanna, leiknum í kvöld.  Eitt er víst að bæði lið gerðu sér grein fyrir mikilvægi leiksins.  Þótt ÍA hafi búið lengur í 1. deildinni síðastliðin ár en Fjölnir vilja bæði lið greinilega flytja búfé sitt upp í Dominos.  Fyrsti leikhluti var gríðarlega jafn og skiptust liði á að skora. Varnirnar voru ok og sóknirnar líka og ekki minkaði spennan, 18-20 fyrir gestina.

 

Heimamönnum virtist svo gott sem fyrirmunað að skora í 2. leikhluta og Fjölnismenn gengu á lagið, náðu 10 stiga forystu þegar ein mínúta var eftir af fyrrihálfleik og leiddu svo 32 – 39 í leikhlé eftir bözzer Sean Tate frá miðju – það var eini staðurinn sem ÍA var með 100% skotnýtingu frá.

 

Skagamenn fóru að hitta betur í 3. leikhluta og náðu forustunni og leiddu 57-54 þegar 1 mín var eftir að 3. en Fjönismenn settu tvist, ÍA fór svo á línuna og settu bæði vítin niður og unnu fjórðunginn og leiddu með 3ja stiga körfu mun 59-56 fyrir lokaleikhlutann. Stórleikir eiga jú að vera spennandi.

 

Það er óhætt að segja að heimamenn hafi mætt af fullum krafti inn í fjórða, stemmningin var þeirra megin á meðan gestirnir voru eitthvað Bretlandsmegin í umferð leiksins. Skaginn gekk á lagið og náði tíu stiga forystu 66-56 og Fjölnir tók leikhlé.  Það dugði til að vekja þá og söxuðu þeir forskotið niður í sex stig, 68-62 áður en ÍA tók leikhlé.  Það eru engar íkjur að frá og með þarna hófst þátturinn Háspenna Lífshætta og þegar 1 mín var eftir var staðan 78-76.  Skaginn setti þá tvist og eftir körfuna var dæmd villa á Fannar, hans fimmta villa og hann því útilokaður frá leiknum, en áður hafði Jón Orri farið sömu leið.  Fjölnir fór í sókn og Sean nennti ekkert að vera í vörn og stal bara boltanum og keyrði upp völlinn, skot ÍA geigaði en eftir krafs undir körfunni fékk ÍA innkast og tók leikhlé.  29,6 sek eftir af leiknum, 14 sek á skotklukkunni. Fjölnismenn brutu svo strax eftir innkastskefið og Erlendur Ottesen fór á línuna, setti seinna niður og staðan 81-76. Fjölnir brunaði í sókn og Róbert Sigurðsson fór á vítalínuna og ákvað að pulla Ella trendsetter á þetta og setti seinna vítið niður.  Vítasagan var ekki öll sögð þarna því nú var röðin komin að Áskeli að fara á línuna, hann stóðst álagið og setti bæði niður og kom stöðunni í 83-77.

 

Nú lá Fjölnismönnum á og það þurfti eins mörg stig í einu og mögulegt var, því var hlaðið í hraðan þrist sem geigaði, Colli Pryor tók sóknarfrákast og dæmd var villa á ÍA og 13,8 sek eftir. Pryor var ekki alveg með miðið í lagi og bæði vítaskotin voru af.  Steinar náði þá boltanum fyrir ÍA og sagan hélt áfram, brotið á honum og hann á línuna þegar 9,6 sek voru eftir.  Steinar gerði sér lítið fyrir og setti bæði vítin niður og kom stöðunni í 85-77 og sigurinn í höfn þrátt fyrir flottan bözzer Róberts Sigurðssonar.  Lokatölur á Akranesi því ÍA 85 Fjölnir 80.

 

Hjá Fjölni var Garðar Sveinbjörnsson með flottan leik, 21 stig og yfir 50% skotnýtingu, eins var Róbert Sigurðsson flottur þar sem hann var t.d. með 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum ofaní, allt í lagi nýting þar.

 

Hjá ÍA var það liðsheildin sem small, enn einn leikinn, og sigurinn var hennar, þrátt fyrir 30+ stiga leik Sean og enn einn tvöfalda tvennu leikinn hjá 5 villu mönnum ÍA og annan leikinn í röð sýndi Áskell úr hverju hann er gerður.

 

Skagamenn eru því búnir að vinna sex í röð og komu sér þægilega fyrir í 4. sætinu með 20 stig en Fjölnismenn sitja enn í 2. sæti deildarinnar með 22 stig.  Það má því búast við hörku leikjum í loka umferðum 1. deildar í baráttunni um sæti í úrslitakeppni og það sem meira er, deildarmeistaratitilinn þrátt fyrir að Þór frá Akureyri hafi vissulega sett einn putta enn á bikarinn með sigri íA.  Svona er boltinn.

 

ÍA-Fjölnir 85-80 (18-20, 14-19, 27-17, 26-24)
ÍA: Sean Wesley Tate 33/6 stoðsendingar, Áskell Jónsson 16/5 stoðsendingar, Fannar Freyr Helgason 15/11 fráköst/6 stoðsendingar, Jón Orri Kristjánsson 10/10 fráköst, Steinar Aronsson 5/6 fráköst, Birkir Guðjónsson 3, Erlendur Þór Ottesen 3/5 fráköst, Ásbjörn Baldvinsson 0, Þorsteinn Helgason 0, Þorleifur Baldvinsson 0, Ómar Örn Helgason 0/4 fráköst, Jón Rúnar Baldvinsson 0. 
Fjölnir: Garðar Sveinbjörnsson 21, Róbert Sigurðsson 16/4 fráköst, Egill Egilsson 11/7 fráköst, Collin Anthony Pryor 8/8 fráköst, Alexander Þór Hafþórsson 6, Sindri Már Kárason 6/6 fráköst, Árni Elmar Hrafnsson 5, Bergþór Ægir Ríkharðsson 4, Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 3, Smári Hrafnsson 0, Valur Sigurðsson 0, Þorgeir Freyr Gíslason 0. 

 

Texti: HH
Mynd: Jónas H. Ottósson. Myndin heitir Sexý röð hjá ÍA